Hagnaður Össurar fyrir skatta og fjármagnsliði (EBITDA) á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam 17,8 milljónum Bandaríkjadala, samanborið við 16,3 milljónir dala á sama tíma árið áður jókst því um 9%.

EBITDA hagnaður Össurar fyrir árið í heild nemur þannig 67 milljónum dala, samanborið við 79,4 milljónir dala árið áður og dregst því saman um 16% á milli ára.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu en hagnaður eftir skatta og fjármagnsliði á síðasta ári nam 22,8 milljónum dala og dregst saman um 20% á milli ára.

Sala félagsins á árinu nam rúmum 330 milljónum dala og lækkar um 5% á milli ára en rekstarkostnaður, að undanskildum öðrum tekjum og kostnaði vegna endurskipulagningar, dróst saman um 8% á milli ára og nam 154 milljónum dala.

Eignir félagsins aukast um 4% á milli ára og námu í lok árs tæpum 630 milljónum dala. Þá jókst eigið fé Össurar nokkuð á milli ára, eða um 25%, og nam í árslok rúmum 312 milljónum dala. EBITDA hlutfallið var í árslok rétt rúm 20%, samanborið við 23% árið áður.