Danska þróunar- og fasteignafélagið Sjælsø var rekið með 292 milljóna danskra króna hagnaði fyrir skatta, jafngildi um 4,7 milljarða íslenskra króna, á fyrri helmingi ársins.

Þetta er um 50% samdráttur frá sama tímabili í fyrra en þá nam hagnaðurinn liðlega 594 milljónum danskra króna.

Björgólfur Thor Björgólfsson og félög honum tengd eru einn stærsti hluthafinn í Sjælsø en þau eiga, ásamt með Rønje Holding, tæplega 30% hlut í Sjælsø í gegnum félagið SG Nord Holding.

Tekjur Sjælsø voru svipaðar á milli tímabila en beinn kostnaður hækkaði um einar 200 milljónir danskra króna og ekkert var fært til tekna vegna verðmatsbreytinga fasteigna á móti um 85 milljóna tekjufærslu í fyrra.

Þetta, auk um fjórðungshækkunar í launaliðum, varð til þess að rekstrarhagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði og skatta, EBIT, fór úr 592 milljónum í 281 milljón danskra króna.

Heildareignir Sjælsø námu um 8,4 milljörðum danskra króna, jafngildi um 137 milljarða íslenskra króna, og þar af var eigið fé rúmlega 2,1 milljarður og eiginfjárhlutfallið var 54,6%.

Þrátt fyrir verri afkomu en fyrstu sex mánuðina í fyrra var þó arðsemi eigin fjár á tímabilinu reiknuð á ársgrundvelli liðlega 20%. Þá var félagið með liðlega 18 milljarða íslenskra króna í lausafé sem þó er 27% minna en um áramótin.

Í tilkynningu Sjælsø kemur fram að óróinn á fjármálamörkuðum hafi haft áhrif á fasteignamarkaðinn. Fjármögnun sé almennt orðin erfiðari viðfangs og Sjælsø hafi greinilega orðið vart við að fjárfestar séu tregari til þegar kemur að kaupum á nýjum fasteignaverkefnum.

Þetta breyti þó ekki því að Sjælsø njóti trausts meðal fjármálafyrirtækja og geti aflað sér fjármagns á viðunandi kjörum en hækkandi vextir hafi hins vegar áhrif á afkomuna og birtist í hækkandi beinum kostnaði í uppgjörinu.