Hagnaður Sparisjóðs Hafnarfjarðar nam 311 milljónum króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins og jókst um 69,6% miðað við sama tímabil 2005, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Arðsemi eigin fjár var 17% á ársgrundvelli samanborið við 12,2% arðsemi á sama tímabili 2005.

Hreinar vaxtatekjur námu 693 milljónum króna og hækkuðu um 4,8% milli ára. Hreinar rekstrartekjur námu 1.347 milljónum króna og jukust um 24,4% milli ára.

Rekstrarkostnaður nam 836 milljónum króna á fyrri helmingi ársins og jókst um 8,9% milli ára. Kostnaðarhlutfall lækkaði, var 62,1% samanborið við 70,9% á sama tímabili 2005.

Eigið fé nam 4.108 milljónum króna hinn 30. júní síðastliðinn og CAD-hlutfall var 11,3%, en það var 15,1% um síðustu áramót.

Staða SPH er sterk og er Sparisjóðurinn því vel í stakk búinn að halda áfram að leggja megináherslu á þjónustu við einstaklinga, lítil og meðalstór fyrirtæki líkt og undanfarin ár. Í samræmi við afkomu fyrra árshelmings ársins 2006 gera stjórnendur SPH ráð fyrir að afkoma fyrir árið í heild verði góð, segir í tilkynningunni.