Nýr samningsgrundvöllur hefur skapast í Icesavedeilunni þar sem lítið ber á milli. Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt AGS um að veruleg framþróun hafi orðið í málinu.

Hagstæðari niðurstaða en áður hefur boðist í Icesavedeilunni liggur nú á borðinu. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra staðfestir að jákvæð framvinda hafi orðið í málinu og að það sé nú í höndum samninganefndar Íslands að klára það litla sem út af stendur í viðræðunum.

Viðskiptablaðið greindi frá því 16. september síðastliðinn að Bretar og Hollendingar hefðu boðið íslenskum stjórnvöldum að leggja fram nýtt tilboð um lausn Icesave-deilunnar sem væri mun hagstæðara fyrir Íslendinga en síðasta tilboð landanna. Þar var einnig sagt frá því að fulltrúar landanna tveggja hefðu komið þeim skilaboðum til íslenskra stjórnvalda að verði slíkt tilboð lagt fram muni þau samþykkja það.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .