Hagstofa Íslands hefur framleitt smáforrit sem gerir notendum snjallsíma og spjaldtölva kleift að sækja bæklinginn Ísland í tölum og skoða lykiltölur um land og þjóð á handhægan hátt. Þetta er í fyrsta sinn sem Hagstofan miðlar hagtölum með snjallbúnaði.

Björgvin Sigurðsson, deildarstjóri upplýsingatækni og miðlunar hjá Hagstofunni, segir að bæklingurinn hafi lengi verið langvinsælasta útgáfuefni Hagstofunnar og því hafi það þótt tilvalið að stíga fyrstu skrefin í snjallsímavæðingu upplýsingamiðlunar hjá Hagstofunni með útgáfu hans fyrir snjallsíma og spjaldtölvur.

Fyrst um sinn verður forritið aðeins til fyrir Android-stýrikerfið, en hann segir að ef viðtökurnar eru góðar verði örugglega farið í það að búa til forrit fyrir iPhone og iPad tækin. „Ísland í tölum hefur verið gríðarlega vinsæll bæklingur, einkum meðal leiðsögumanna og fararstjóra, og má sem dæmi nefna að bæklingurinn fyrir árið 2011 seldist upp í fyrra.“

Efni bæklingsins er byggt á Landshögum, árbók Hagstofunnar, og Björgvin segir að ef vel gengur með þessa tilraun komi vel til greina að árbókin sjálf verði gerð almenningi aðgengileg í gegnum snjallsíma eða spjaldtölvur.

Hann segir að kostnaður við gerð smáforritsins hafi verið í lágmarki. „Við unnum þetta innanhúss og í raun er forritið byggt í kringum pdf-útgáfu af bæklingnum, sem þegar var til. Ætli þetta hafi ekki verið vikuvinna hjá einum manni, þannig að kostnaðurinn er ekki mikill.“

Hægt er að nálgast smáforritið hér .