Írska leikritaskáldið George Bernard Shaw sagði eitt sinn að þótt allir hagfræðingar væru lagðir hver við endann á öðrum, myndu þeir aldrei komast að niðurstöðu. Óvenjumikill samhljómur er þó meðal greiningaraðila um að rólegri tímar séu fram undan í íslensku efnahagslífi næstu tvö árin samanborið við undanfarin ár. Spáð er áframhaldandi en hægjandi hagvexti, sem knúinn verður áfram af heimilum landsins og hinu opinbera á kostnað minni umsvifa fyrirtækja.

Innlendir og erlendir greiningaraðilar hafa nú uppfært þjóðhagsspár sínar fyrir Ísland næstu tvö árin og eru þær að mestu leyti sambærilegar þeim spám sem birtar voru á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Allar spár gera ráð fyrir mjúkri lendingu hagsveiflunnar eftir uppgang síðustu ára, þar sem vöxtur hagkerfisins heldur áfram en fer minnkandi, án þess að því fylgi skakkaföll í framleiðslu, mikið atvinnuleysi, verðhrun á fjármálamarkaði og því um líkt.

Hagvöxtur var 3,6% í fyrra og 7,5% árið 2016, en að meðaltali spá greiningaraðilar að vöxtur hagkerfisins verði 3,1% í ár, 2,7% á næsta ári og 2,5% árið 2020. Er það í takt við um 3% meðalhagvöxt á Íslandi undanfarin 40 ár og hagvöxt í þróuðum ríkjum.  Hagvaxtarspárnar liggja á bilinu 2,6- 4,1% í ár, 2,4-3,2% á næsta ári og 2,1-2,7% árið 2020.

Gangi spár greiningaraðila eftir verður Ísland komið á tíunda ár samfellds hagvaxtar árið 2020. Frá árinu 1875 hefur að jafnaði átt sér stað niðursveifla í íslensku hagkerfi á tíu ára fresti, þar sem hagkerfið skreppur saman í tvö ár og framleiðsla þjóðarbúsins dregst saman um 7,6%. Ef marka má nýjustu hagspár eru litlar líkur á að það gerist.

Hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi var 6,6% samanborið við sama tímabil í fyrra. Er það rúmlega tvöfalt meiri vöxtur en greiningaraðilar búast við fyrir árið í heild. Hagvöxturinn var borinn uppi af vexti útflutnings, aukinni fjárfestingu og einkaneyslu. Áfram hægði á vexti einkaneyslunnar, íbúðafjárfesting var mikil, útflutningur á þjónustu minnkaði með hægari fjölgun ferðamanna og vöruútflutningur jókst töluvert, einkum á þorski, en veiðar á tveimur fyrstu mánuðum síðasta árs voru mjög litlar vegna sjómannaverkfallsins.

Ferðaþjónustan lækkar flugið

Hagvöxtur á Íslandi hefur verið mikill á síðustu árum vegna hratt vaxandi ferðaþjónustu, aukinnar atvinnuvegafjárfestingar, hagstæðra ytri skilyrða, vaxandi kaupmáttar heimila og farsællar lausnar á þeim vandamálum sem hrun fjármálakerfisins skapaði í lok síðasta áratugar. Hröð framleiðsluaukning hagkerfisins hefur verið umfram það sem hagkerfið stendur undir til lengri tíma litið, sem meðal annars hefur brotist fram í hraðri styrkingu krónunnar, þenslu á vinnumarkaði og hækkandi eignaverði, einkum á fasteignamarkaði.

Greiningaraðilar spá nú að hægja muni verulega á vexti ferðaþjónustunnar. Frá og með síðasta vori hefur erlendum ferðamönnum fjölgað hægar en undanfarin ár og hægar en vænst var til. Dregið hefur úr eyðslu þeirra og þeir dvelja skemur. Ástæðan er sú að Ísland er orðið einn dýrasti áfangastaður heims, ef ekki sá allra dýrasti. Raungengi krónunnar á mælikvarða hlutfallslegs verðlags, sem lýsir því hversu mikið vörur og þjónusta kosta í tilteknu landi í hlutfalli við önnur lönd, hefur hækkað yfir 30% frá árinu 2015. Ástæðan er einkum sú að gengi krónunnar hefur styrkst vegna hagstæðra ytri skilyrða og mikils fjármagnsinnflæðis með aðsókn ferðamanna til landsins. Á sama tíma eru innviðir landsins undir verulegum þrýstingi og víða komnir að þolmörkum. Við þessar aðstæður eru meiri líkur en minni á því að fleiri ferðamenn fari til annarra, ódýrari áfangastaða.

Hagfræðideild Landsbankans hefur metið það svo að ferðaþjónustan útskýri allt að helming hagvaxtarins í núverandi uppsveiflu. Greinin myndar í kringum þriðjung af útflutningi þjóðarbúsins. Eðli málsins samkvæmt spá greiningaraðilar að efnahagsuppgangurinn verði hægari næstu árin og að samfara því muni hægja á aukningu bæði inn- og útflutnings. Talið er að viðskiptakjör Íslands í utanríkisviðskiptum verði þó áfram tiltölulega hagstæð.

Samhliða vaxandi tekjuöflun hagkerfisins undanfarin ár hefur atvinnuvegafjárfesting og innflutningur verið mikil. Stórum verkefnum í stóriðju og raforkuframleiðslu er hins vegar að mestu lokið. Jafnframt er spáð að draga muni úr fjárfestingum fyrirtækja í ferðaþjónustu, svo sem í bílum, stórum farartækjum og hótelum. Á hinn bóginn er spáð að íbúðafjárfesting muni taka við keflinu af atvinnuvegafjárfestingu og aukast til að koma til móts við framboðsskortinn á íbúðamarkaði. Einnig spá greiningaraðilar að opinberi geirinn muni láta meira til sín taka, en ný ríkisstjórn hefur boðað aukin ríkisútgjöld og sveitarfélögin eru að auka innviðafjárfestingar. Helsti munurinn á þjóðhagsspám greiningaraðila liggur í vexti fjármunamyndunar næstu árin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .