Hagvaxtartölur sem Hagstofan birti í morgun fyrir fystu níu mánuði ársins benda til þess að hagvöxtur ársins gæti orðið nokkuð umfram spár. Hagvöxtur fyrir fyrstu níu mánuði ársins nema 3,1% en opinberar spár sem birtar hafa verið undanfarið hljóða upp á 1,7-2,3%. Greining Íslandsbanka segir að það sem komi á óvart í tölunum sé hversu mikið þjónustuútflutningur er að vaxa á tímabilinu, eða um 7,4%. Aðrar þjóðhagsstærðir eru í stórum dráttum að þróast í samræmi við þjóðhagsspá okkar frá október síðastliðnum.

Seðlabankinn spáði 2,3% hagvexti í sinni síðustu hagvaxtarspá. Í Morgunkorni Íslandsbanka segir að hinar nýju tölur gætu bent til þess að hagvöxtur yrði meiri á árinu. „Merkir þetta að slakinn er að hverfa hraðar úr hagkerfinu en gert er ráð fyrir í spá bankans. Á móti er framleiðnivöxturinn meiri, sem dregur úr verðbólguhættu. Við teljum samt ólíklegt að þessar tölur muni hafa áhrif á ákvörðun Seðlabankans um stýrivexti í næstu viku og reiknum þar með óbreyttum vöxtum,“ segir í Morgunkorninu.

Greining Íslandsbanka segir að reynslan sýni að þjóðhagsreikningar breytist oft verulega frá fyrstu tölum þegar frá líði. Eflaust muni Seðlabankinn hafa það bak við eyrað þegar þessar tölur eru metnar.