*

mánudagur, 16. maí 2022
Innlent 19. október 2021 12:18

Hagvísir Analytica ekki hærri í þrjú ár

Leiðandi hagvísir Analytica hefur hækkað í eitt ár samfleytt og ekki verið hærri frá sumrinu 2018.

Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica.
Haraldur Guðjónsson

Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði í september og hefur nú hækkað í eitt ár samfleytt. Hagvísirinn hefur nú ekki verið hærri síðan sumarið 2018. „Efnahagsbati er í gangi og litið er til væntanlegs stóraukins loðnuafla á komandi vertíð,“ segir í tilkynningu Analytica.

Fimm af sex undirliðum hagvísisins hækkuðu á milli mánaða en stærsta framlag til hækkunar er vegna fjölgunar ferðamanna og aukins vöruinnflutnings. Vísitala aflamarks, einn undurliðurinn, hækkaði frá fyrri mánuði vegna tilkynningar um úthlutun aflamarks í loðnu.

Vísitala aflamarks bar vott um að undanfarna mánuði hafi verið lítilsháttar samdráttur, m.a. í framhaldi af minna aflamarki annarra tegunda. Raungerist væntingar um stóraukinn loðnuafla megi þó búast við að þessi undirliður hagvísisins verði leiðandi í vetur og vegi þannig á móti minni vexti í kortaveltu innanlands.

„Þrátt fyrir sterkar jákvæðar vísbendingar þá er ennþá óvissa tengd ferðaþjónustu og framgangi COVID-19 farsóttarinnar erlendis. Þá er óvissa um framvindu í öðrum þeim atvinnugreinum sem mest hafa vaxið síðustu misseri.“

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum. Hagvísirinn er er samansettur af eftirfarandi sex liðum: aflamagn, debetkortavelta, ferðamannafjöldi, heimsvísitala hlutabréfa, innflutningi og væntingavísitölu Gallup.