Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) hækkaði um 0,3% í júlí. Gildi hagvísisins hefur ekki verið hærra í uppsveiflu síðan 2006. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Analytica.

Hagvísirinn bendir til hagvaxtar yfir langtímaleitni. Hækkunin nú skýrist af hækkun væntingavísitölu Gallup og aukinni debetkortaveltu og fiskafla. Áfram eru vísbendingar um vöxt innlendrar eftirspurnar og mikil aukning er í komum ferðamanna.

Sem fyrr eru hins vegar áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum. Þar má nefna að nú hafa Rússar sett innflutningsbann á íslenskar sjávarafurðir en áhrif þess mælast ekki enn.

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum.