Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði í ágúst en um er að ræða hækkun ellefta mánuðinn í röð. Hagvísirinn hefur ekki verið hærri síðan í ársbyrjun 2019. „Efnahagsbati er í gangi en þróun kortaveltu í verslun innanlands bendir til að hægja kunni að vera á batanum,“ segir í frétt Analytica.

Fjórir af sex undirliðum hagvísisins hækka frá júlímánuði en stærsta framlag til hækkunar er vegna fjölgunar ferðamanna og aukins vöruinnflutnings. Enn ríkir þó óvissa um ferðaþjónustuna og framgang Covid-farsóttarinnar erlendis. Einnig er sögð óvissa um framvindu í öðrum atvinnugreinum sem hafa vaxið mest síðastliðin misseri.

Þrátt fyrir sterkar jákvæðar vísbendingar þá er ennþá óvissa tengd ferðaþjónustu og framgangi COVID-19 farsóttarinnar erlendis. Þá er óvissa um framvindu í öðrum þeim atvinnugreinum sem mest hafa vaxið sl. misseri.

Ferill debetkortaveltu í verslun innanlands, reiknuð sem frávik frá langtímaleitni, ber vott um minni vöxt og gefur þannig vísbendingu um að það kunni að styttast í vendipunkt leiðandi hagvísisins. „Þetta gæti m.a. tengst því að með auknum ferðavilja Íslendinga þá færist neysla frá innlendri verslun og til útlanda.“

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum og hefur vísitalan verið birt mánaðarlega síðan vorið 2013. Hugmyndin að baki vísitölunni er sú að framleiðsla hefur aðdraganda. Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga.

Mynd tekin úr frétt Analytica.