Fjármálaráðuneytið spáir samdrætti í þjóðarútgjöldum árið 2007, eftir aðhaldssama hagstjórn undanfarin ár og að stóriðjuframkvæmdum loknum. Þó muni kröftugur viðsnúningur í utanríkisviðskiptum verða til þess að hagvöxtur það ár verði 1,8%.

Þá kemur fram að bráðabirgðatölur benda til að landsframleiðsla hafi aukist um 5,5% á síðasta ári, vegna ört vaxandi þjóðarútgjalda. "Til viðbótar við stóriðjufjárfestingar urðu ófyrirséðar breytingar á fjármálamarkaði sem höfðu tímabundin áhrif til að stórauka einkaneyslu og innflutning."

Spáð er 4,8% aukningu í landsframleiðslu í ár, að raungildi, en á grundvelli breyttrar samsetningar hagvaxtarins. "Það hægir hratt á vexti þjóðarútgjalda og innflutnings en stóraukinn útflutningur áls segir til sín. Brottflutningur varnarliðsins er metinn að hafa lítilsháttar áhrif á hagvöxtinn til lækkunar en skapa hins vegar ný tækifæri þegar fram í sækir."

Í þjóðhagsspánni segir að óhjákvæmileg afleiðing tímabundinna búhnykkja hafi verið stórfelldur viðskiptahalli -- 16,5% af landsframleiðslu árið 2005. "Útlit er fyrir að viðskiptahallinn verði áfram mikill í ár, eða 14,4% af landsframleiðslu, en að hann dragist hratt saman árið 2007 og verði 7,7% af landsframleiðslu. Lækkun á gengi krónunnar flýtir fyrir ytri aðlögun þjóðarbúsins."