Hagvöxtur var heldur minni í fyrra en Hagstofan taldi og sama gildir um fyrri hluta þessa árs. Seðlabankinn spáði því að hagvöxtur á fyrri hluta árs yrði 3,5% en raunin var 2,4%.

Þetta sagði Þórarinn Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, þegar hann kynnti nýjustu útgáfu Peningamála, þjóðhagsspá bankans, í dag. Hann sagði megin drifkraft hagvaxtar frá fyrri hluta árs 2010 vera útflutning og innlenda eftirspurn. Innflutningur hafi þó einnig vaxið mikið og framlag utanríkisviðskipta því neikvætt. Um 5% hagvöxt frá því botni efnahagskerfisins árið 2010 skýrist af eftirspurn innlendra aðila, það er einkaneysla og fjárfesting.