Betri gangur reyndist í bandarísku efnahagslífi á fjórða og síðasta ársfjórðungi í fyrra en bölsýnisspámenn höfðu almennt búist við. Hagvöxtur reyndist vera 3% á fjórðungnum í stað 2,8%. Til samanburðar var hagvöxtur aðeins 1,8% á þriðja ársfjórðungi.

Í umfjöllun breska útvarpsins, BBC, kemur fram að helsta ástæðan fyrir því að niðurstaðan fór fram úr spám var sú að launatekjur jukust meira en búist hafði verið við og einkaneysla, sem er stór liður í bandarískum hagvaxtartölum, farið fram úr væntingum. Að því viðbættu hafði verið gert ráð fyrir því að fyrirtæki myndu halda að sér höndum. Það gerðu þau hins vegar ekki í þeim mæli sem búist hafði verið við.