Hagvöxtur reyndist 9,5% á fjórða ársfjórðungi í Kína og er það í takt við hagvaxtartölur undanfarinna ársfjórðunga, en þó talsvert meiri hagvöxtur en sérfræðingar höfðu spáð. Meðalspá samkvæmt könnun á vegum Bloomberg sýndi að reiknað var með 8,9% hagvexti og því var niðurstaðan umfram væntingar. Yfirvöld í Kína hafa reynt að sporna við þenslu með ýmsum ráðum eins og að takmarka útlán og fjárfestingar og hyggjast halda því áfram.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að þrátt fyrir mikinn hagvöxt er verðbólga enn hófleg, en þó er reiknað með 4% verðbólgu á þessu ári. Fátítt er að hagkerfi í heiminum hafi vaxið með þvílíkum hraða og það kínverska á undanförnum áratugum. Hagvöxtur hefur mælst að meðaltali 9,4% síðan að yfirvöld hófu að opna hagkerfið og innleiða markaðsbúskap árið 1978. Stærð hagkerfisins er orðin slík að vöxtur Kína á stóran þátt í að auka hagvöxt annarra landa og þrýsta upp verði á ýmsum hrávörum. Þá aukast tekjur heimilanna hratt og er reiknað með að árið 2020 verði í Kína um 100 milljónir heimila með sambærilegar tekjur og heimili í vestur Evrópu.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.