Sérfræðingar, sem tóku þátt í mánaðarlegri könnun Bloomberg, spá því að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði 3,6% á þessu ári og verði því minni en á nýliðnu ári en gert er ráð fyrir að hagvöxtur nýliðins árs verði 4,4%. Gangi spáin eftir verður hagvöxtur ársins 2004 í 4. ára hámarki.

Á árinu er búist við áframhaldandi stýrivaxtahækkunum bandaríska seðlabankans og er að jafnaði búist við að stýrivextirnir verði komnir í 2,75% í lok árs. Ekki er gert ráð fyrir því að þær miklu olíuverðshækkanir, sem áttu sér stað á nýliðnu ári endurtaki sig á þessu ári og þess vegna er gert ráð fyrir minni verðbólgu á árinu eða 2,5% að jafnaði. Gert er ráð fyrir því að stöðugra og lægra olíuverð kyndi undir vöxt á árinu og valdi því að fyrirtæki ráði til sín meira af fólki.

"Þess vegna er gert ráð fyrir að neysla færist frá einstaklingum yfir til fyrirtækja enda er talið að hækkandi stýrivextir hafi letjandi áhrif á einkaneyslu einstaklinga. Af þessum sökum er búist við því að 2 milljónir nýrra starfa skapist á árinu og mun það hafa í för með sér að atvinnuleysishlutfallið fari úr 5,4% í 5,1% undir lok ársins. Gangi þetta eftir er um að ræða minnsta atvinnuleysi sem mælst hefur í Bandaríkjunum frá árinu 2001. Samkvæmt fyrrgreindu eru efnahagshorfur á bandaríska markaðnum því góðar enda er búist við töluverðum hagvexti án þess að hann ógni verðstöðugleika," segir í Vegvísi Landsbankans.