Hagvöxtur í Bandaríkjunum nam 2,2% á ársmælikvarða á fjórða ársfjórðungi í fyrra, sem er minni hagvöxtur en áður var talið að hefði verið á tímabilinu, að því er segir í frétt BBC. Þar segir að áður hafi verið talið að hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi 2014 hafi numið 2,6% í fyrra.

Á þriðja fjórðungi í fyrra nam hagvöxtur í Bandaríkjunum 5% á ársmælikvarða, en þrátt fyrir minni hagvöxt á fjórða fjórðungi eru hagfræðingar fremur bjartsýnir á horfur í bandarískum efnahagsmálum. Einkaneysla mælist sterk, m.a. vegna lækkandi bensínverðs, en það hefur aukið svigrúm neytenda til að verja fé sínu í annað.

Þá hefur atvinnuleysi dregist saman og nú þegar verðhjöðnun mælist eru litlar líkur á öðru en að seðlabankinn haldi vöxtum áfram nærri núllinu.