Landsframleiðslan á 3. ársfjórðungi 2018 jókst að raungildi um 2,6% frá sama ársfjórðungi fyrra árs. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 0,5%.

Einkaneysla jókst um 5,3% og samneysla um 3,4% á sama tíma en fjárfesting dróst saman um 5,6%. Útflutningur jókst um 5,1% og innflutningur um 0,6%. Helstu drifkraftar hagvaxtar á 3. ársfjórðungi 2018, borið saman við sama tímabil fyrra árs, voru einkaneysla og utanríkisviðskipti að því er Hagstofan greinir frá.

Meiri neysla á síðasta ári en menn hugði

Landsframleiðslan á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 jókst um 5,0% að raungildi borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2017. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld um 4,3%. Einkaneysla jókst um 5,4%, samneysla um 3,5% og fjárfesting um 2,7%. Útflutningur jókst um 4,1% og innflutningur um 2,4%. Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla stóð í stað að raungildi frá 2. ársfjórðungi 2018.

Hagstofan birti einnig endurskoðun á þjóðhagsreikningum fyrir árið 2017, en samkvæmt þeim jókst einkaneysla um 7,9% að raungildi á árinu, borið saman við fyrra ár, samneysla um 3,7% (borið saman við 3,1% samkvæmt niðurstöðum þjóðhagsreikninga sem birtir voru í september) og fjárfesting um 9% (borið saman við 9,5% samkvæmt þjóðhagsreikningum sem birtir voru í september).

Alls jukust þjóðarútgjöld um 7% en aukning í landsframleiðslu reyndist 4% sem er óbreytt frá áður birtum niðurstöðum.