Tölvuþrjótar stálu 2 milljörðum rússneskum rúblum eða tæplega 3,5 milljörðum króna af reikningum viðskiptabanka hjá rússneska seðlabankanum með rafrænum hætti. Ekki er ljóst hvenær netárásin átti sér stað, en seðlabankinn greindi CNN Money frá viðburðinum í gær.

Reynt var að millifæra allt að 5 milljarða rúblna, en seðlabankanum tókst að koma í veg fyrir það og náði að endurheimta um 3 milljarða. Tölvuþrjótarnir náðu einnig að seilast inn í innlánsreikninga viðskiptavina ýmissa viðskiptabanka. Talið er að árásirnar komi frá hollenskum netþjónum, en rússneska leyniþjónustan óttast að tölvuþrjótarnir séu frá Úkraínu.

Ekki er vitað hvernig tölvuþrjótarnir fóru að því að millifæra fjármunina, en árásin svipar til nýlegra netárása á fjármálakerfi heimsins. Má þar nefna árásir í Ekvador, Filippseyjum, Víetnam og Bangladess það sem af er ári.

Rússneska leyniþjónustan greindi frá því í að hún hafi komið í veg fyrir tilraun hakkara til að grafa undan trausti almennings í garð fjármálakerfisins. Ætlun þeirra var að brjótast inn á vefsíður og tölvukerfi rússneskra banka og skrifa og dreifa ósönnum fréttum af óstöðugleika bankanna og rekstrarleyfum þeirra. Slíkt hefði getað haft grafalvarlegar afleiðingar í för með sér, enda þarf ekki nema ljótan orðróm til að fella heilbrigða banka jafnt sem veikburða í bankakerfi nútímans.