Hagnaður af rekstri Ístaks í fyrra nam 499,8 milljónum króna samanborið við 270,2 milljóna króna tap árið 2011. Velta fyrirtækisins jókst um 177,3 milljónir króna milli ára og nam 20.652 milljónum króna. Framkvæmdakostnaður dróst saman um einar 667,9 milljónir og nam 20.048,4 milljónum. Framlegð Ístaks í fyrra nam því 603,5 milljónum króna í fyrra samanborið við neikvæða framlegð upp á 241,7 milljónir árið 2011.

Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður jókst um rúmar 30 milljónir á árinu og nam 400,9 milljónum króna í fyrra. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 624,4 milljónum króna í fyrra samanborið við 338,2 milljóna króna tap árið 2011. Handbært fé frá rekstri nam 383,4 milljónum króna.

Eignir fyrirtækisins námu 14,4 milljörðum króna í árslok 2012 og lækkuðu um rétt tæpar 100 milljónir króna. Skuldir lækkuðu um 600 milljónir og námu 7,9 milljörðum. Þar af eru langtímaskuldir 2,7 milljarðar. Eigið fé hækkaði um hálfan milljarð króna á árinu og nam í árslok 2012 rúmum 6,4 milljörðum króna.

Móðurfélag Ístaks,  Pihl & Søn, skilaði alls tapi upp á 9,9 milljarða króna í fyrra, en í tilkynningu frá danska félaginu kemur fram að rekstur þess á Íslandi og í Danmörku hafi skilað góðum arði í fyrra. Eins og vb.is greindi frá fyrr í dag var forstjóra Pihl & Søn, Halldóri P. Ragnarssyni, sagt upp vegna lélegrar afkomu félagsins í fyrra.