Gestum sem fara upp í Hallgrímskirkjuturni mun líklega fjölga um 30% frá því í fyrra. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins í morgun.

Þar er haft er eftir Jónönnu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Hallgrímskirkju, að um 200 þúsund gestir hafi keypt sér aðgang að turninum á síðasta ári og það hafi skilað tekjum sem námu um 161 milljón króna.

Ef að fjölgunin heldur áfram eins og á horfir, þá er líklegt að gestir verði yfir 260 þúsund í árslok. Það þýðir að tekjurnar fyrir árið 2016 gætu farið yfir 200 milljónir.

Féð rennur til kirkjunnar

Aðgangseyrir upp í turninn er 900 krónur fyrir fullorðna en 100 krónur fyrir börn. Allar tekjurnar renna til Hallgrímskirkju. Fer féð meðal annars í viðhald á kirkjunni. Einnig hvílir 400 milljóna bankalán á kirkjunni vegna viðhalds á kirkjuturninum. Þessar viðhaldsframkvæmdir væru ekki mögulegar ef ekki kæmu þessar tekjur, er haft eftir Jónönnu.

Nákvæmar heimsóknatölur í turninn eru þó ekki til taks, en í byrjun ársins var tekin upp notkun á talningatæki að sögn Jónönnu. Það sýnir að meðalfjöldi gesta á dag sé um 2.500 manns.