98 milljarða dala halli varð á rekstri ríkissjóðs Bandaríkjanna í júlí. Upphæðin nemur 11700 milljörðum króna. Engu að síður jukust tekjur ríkisins frá sama mánuði í fyrra. Þetta sýnir skýrsla fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna sem var birt í dag.

Reuters segir að aðalástæða framúrkeyrslunnar sé útgjöld til heilbrigðismála, lífeyriskerfisins og hersins. Sérfræðingar Reuters gerðu ráð fyrir 96 milljarða dala halla.

Ríkissjóður Bandaríkjanna er yfirleitt rekinn með halla í júlí vegna þess að litlar skatttekjur koma í ríkiskassann þann mánuðinn.

Halli hefur verið á ríkissjóði Bandaríkjanna allt frá árinu 2001 og hefur sá halli aukist verulega frá 2009 þegar atvinnuleysi jókst. Hallinn hefur hins vegar minnkað í ár frá fyrri árum.