Á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2016 nam halli á vöruviðskiptum við útlönd 99,8 milljörðum króna. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar .

12 milljarða halli í nóvember

Í nóvembermánuði síðasta árs voru fluttar út vörur fyrir 41 milljarð króna, en inn fyrir 52,7 milljarða króna og voru vöruviðskiptin því óhagstæð um 11,7 milljarða króna.

Það er mikil breyting frá nóvember árið 2015 en þá voru vöruviðskiptin óhagstæð um 500 milljónir króna.

Vöruútflutningur 14% verðminni

Ef horft er til fyrstu ellefu mánuði ársins 2016 samanlagt var verðmæti vöruútflutnings í heildina 495,9 milljarðar króna, sem er 82,1 milljarði króna lægra en árið á undan. Það er 14,2% lægri vöruútflutningur miðað við gengi hvors árs.

Á þessum sama tíma voru fluttar inn vörur fyrir 595,7 milljarða króna, en verðmæti vöruinnflutningsins var 3,7 milljörðum króna lægri, eða 0,6% en á sama tímabili árið 2015.

Eins og áður segir gefur það vöruviðskiptahalla sem nemur 99,8 milljörðum króna.

Lækkandi álverð skýrir fimmtungslækkun

Nálega helmingur alls verðmætis íslensk vöruútflutnings var á iðnaðarvörum, eða 49,8% alls útflutnings, en verðmæti þeirra var 19,6% lægra en á sama tíma árið áður, fyrst og fremst vegna lægra álverðs.

Sjávarafurðir námu 43,7% alls vöruútflutnings en verðmæti þeirra var 11,6% lægra en á sama tíma árið áður.

Innflutningur á hrá- og rekstrarvörum dróst saman á síðasta ári miðað við árið á undan sem og innflutningur á eldsneyti, en á sama tíma jókst innflutningur á flutningatækjum.