Nú í sumar keypti símsvörunar- og samskiptaþjónustan Halló rekstur Símaversins ehf. á Ísafirði. Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá kaupunum segir að sífellt fleiri fyrirtæki kjósi að útvista þjónustusamskiptum á borð við símsvörun, vöktun og svörun netspjalls og samskipta á samfélagsmiðlum. Í ljósi aukinna umsvifa eflist og stækki Halló og sé nú orðið einn stærsti þjónustuaðili á þessu sviði á Íslandi.

„Störf eru ekki lengur háð staðsetningu vinnustaða og skrifborða frá klukkan 9-5 heldur vinnur fólk þaðan sem því hentar best. Þannig kemur Halló til móts við þarfir fólks í nútímasamfélagi með tæknilausnum og þekkingu sem skila sér í vandaðri þjónustu og ánægðum viðskiptavinum. Við tökum við frábæru starfsfólki og tugum viðskiptavina Símaversins og hlökkum til að efla samskiptaverið á Ísafirði til muna með Vestfirðingum," segir Andri Árnason, framkvæmdastjóri Halló, í tilkynningu.

Símaverið var stofnað árið 2006 og hefur því svarað í síma og sinnt samskiptum fyrir fjölmörg fyrirtæki um land allt undanfarin 15 ár. Fyrirtækið var upphaflega stofnað með það fyrir augum að efla atvinnulíf á Vestfjörðum og segir Hannes Hrafn Haraldsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Símaversins, að sameining við Halló muni án efa auka fjölbreytni í störfum á svæðinu.

„Þetta eru mjög ánægjuleg tímamót. Að sjá samskiptaverið hér á Ísafirði eflast og stækka með tilkomu Halló býður upp á spennandi valkost í starfi fyrir þau sem hafa ánægju af því að veita öðru fólki góða þjónustu.‟

„Halló er hluti af Miðlun ehf. sem hefur þjónustað íslensk fyrirtæki í meira en 40 ár. Halló annast símsvörun, vöktun netspjalls og samskipti við viðskiptavini í gegnum samfélagsmiðla, auk þess að sjá um rekstur þjónustuvera fyrir stærri fyrirtæki sem vilja veita viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu,“ segir í fréttatilkynningu.

„Rekstur Símaversins og Halló verður sameinaður nú á næstu mánuðum og við hlökkum til að takast á við komandi verkefni. Það er af nægu að taka og ánægjulegt að sjá hve mörg fyrirtæki eru farin að sjá kosti þess að útvista þjónustusamskiptum við viðskiptavini á meðan þeirra fólk sinnir öðrum málum innan starfseminnar. Þannig verður heildarútkoman ánægjuleg fyrir alla, starfsfólk og viðskiptavini,‟ er að lokum haft eftir Andra.