Hallur Magnússon, fyrrverandi sviðsstjóri þróunarsviðs Íbúðalánasjóðs, lét lögfræðing sinn kanna grundvöll fyrir því að fara í meiðyrðamál við rannsóknarnefnd Alþingis sem vann skýrslu um Íbúðalánasjóð. Lögfræðingur hans komst að þeirri niðurstöðu að slíkt sé ekki hægt þar sem rannsóknarnefndir eru verndaðar með lögum.

Í skýrslu nefndarinnar sem birt var í vor segir að Hallur hafi verið ráðinn til Íbúðalánasjóðs á pólitískum forsendum. Hallur hefur mótmælt þessu og sagt skýrsluna fulla af rangfærslum. Ein þeirra snúi að ráðningu hans. Hallur var gestur á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun og vísaði því á bug að pólitísk tengsl hafi legið að baki ráðningunni heldur faglegar. Þá sagði Hallur að hann sé búsettur í Noregi og þar sé reyndar talið til tekna að eiga pólitíska fortíð.

„Á þessum tíma er ég að ljúka námi við viðskiptaháskólann við Kaupmannahöfn, sá auglýsingu árið 1999 og sótti um. Ég fór í viðtal hjá ráðningaskrifstofu Gallup. Tveir aðrir komu til greina. Ég hafði í fimm ár verið blaðamaður á Tímanum og þáttagerðarmaður á Bylgjunni og Rás eitt,“ sagði Hallur á fundinum og ítrekaði að hann hafi verið ráðinn á faglegum forsendum.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir orðrétt um Hall í skýrslu rannsóknarnefndar:

„Einnig vekur athygli að Hallur Magnússon, sem á þeim tíma hafði lengi verið starfandi í Framsóknarflokknum, var ráðinn til stofnunarinnar, fyrst sem yfirmaður gæða- og markaðsmála en síðar sem yfirmaður þróunar- og almannatengslasviðs og að lokum sem sviðsstjóri þróunarsviðs. Ekki fæst séð að umrædd staða hafi verið auglýst er Hallur var fyrst ráðinn árið 1999.“

Hallur vísaði þessum fullyrðingum á bug og las upp úr tölvupóstsamskiptum sínum við rannsóknarnefnd Alþingis. Hann krafðist leiðréttingar á því sem fram kom í skýrslunni og þau verði leiðrétt opinberlega.

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, benti á að með því að fá Hall til fundar við nefndina í dag sé leitast við að hans sjónarmið komi fram auk þess sem sýnt sé beint frá fundinum á neti og í sjónvarpi.