Þorsteinn Þorsteinsson stofnaði nýlega fyrirtækið Markaðsrýni ehf. Hann segir félagið vera það fyrsta sinnar tegundar hér á landi, en það mun bjóða upp á úttekt á hagkvæmni auglýsinga fyrirtækja og stjórnun þeirra.

„Spurning sem oft brennur á auglýsendum er hvort markaðsfé þeirra sé vel varið og hvort það skili tilætluðum árangri. Við munum því með- al annars bjóða fyrirtækjum úttekt á auglýsingastefnu þeirra; kanna hvort auglýsingarnar hreyfi við neytendum og hvort þær séu birtar á sem hagkvæmastan hátt. Til þess að auglýsingar virki sem best þurfa þær að vera vel gerðar og birtar á réttum miðlum. Það hefur aldrei verið boðið upp á þessa þjónustu á Íslandi, svo þetta er mjög spennandi,“ segir Þorsteinn.

Hann segir mikla sóun eiga sér stað á hérlendum auglýsingamarkaði.

„Fyrirtæki eru ýmist að auglýsa of mikið og/eða í röngum miðlum. Það sem við munum gera er að finna mörkin á milli arðsemi og sóunar auglýsinga, og þannig getum við hjálpað fyrirtækjum að hámarka ávinning þeirra,“ útskýrir Þorsteinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .