„Ég hef sérstakan áhuga á að endurvinna og endurnýta gamlan textíl. Ég hef árum saman verið að lita og klippa gamlar flíkur og endurnýta gamalt handverk,“ segir Sigríður Ásta Árnadóttir, textílhönnuður. Bókin hennar, Litfríður – Heklað, prjónað og endurskapað kom út í haust og vakti mikla athygli. Salka gefur bókina út.

Húfa úr bókinni Litfríður – Heklað, prjónað og endurskapað
Húfa úr bókinni Litfríður – Heklað, prjónað og endurskapað

Bókin er samantekt á handverksvinnu Sigríðar Ástu undanfarin ár ásamt safni af prjóna- og hekluppskriftum þar sem afgangagarn er í fyrirrúmi. Sigríður Ásta var mörg ár í Kirsuberjatrénu með föt og annað handverk. Hún hefur líka hannað prjónaflíkur fyrir Ístex, Saumaklúbbonn og Lopa og band og fleiri.

„Það sem er sérstakt við bókina er að uppskriftirnar eru margar mjög opnar. Bókin er ætluð sem innblástur og hvet ég fólk til að fara eigin leiðir og vera skapandi. Velja aðra liti, annað efni og bendi ég á leiðir til þess í bókinni.“ Hún segir markhópinn vera handavinnufólk: „Á Ísland er fullt af færu handavinnufólki. Margir fylgja uppskriftum mjög samviskusamlega og vona ég að Litfríður opni svolítið fyrir sköpunargáfuna hjá þeim. Og það er líka fullt af fallegum litasamsetningum í bókinni sem ég vona að séu innblástur hér í landi hinna svörtu lopapeysa.“