Starfsmenn Efnahagsbrotadeildar ensku lögreglunnar, SFO, handtóku í dag tvo starfsmenn Rolls Royce vélaframleiðandans í Lundúnum. Wall Street Journal greinir frá þessu á vef sínum.

Að auki hafa verið gefnar út fjölmargar húsleitarheimildir í tengslum við málið. SFO segir að stofnunin hafi hafið rannsókn í lok síðasta árs á meintum múturgreiðslum og spillingu í viðskiptum RR á erlendum mörkuðum. Sérstaklega í Asíu.

Málið tengist bílaframleiðandanum ekki, heldur eingöngu vélaframleiðandanum en félagið varð til þegar bílahlutinn var settur í sérstakt félag árið 1973.

Vélaframleiðandinn RR er með um 40 þúsund starfsmenn í 50 löndum. Félagið framleiðir m.a. skipavélar og flugvélahreyfla.