Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ávarpaði gesti ráðstefnunarinnar Global Women Summit sem haldin var um helgina í París. Í máli hennar kom meðal annars fram að aukið jafnrétti til fæðingarorlofs væri það sem hefði skilað mestum árangri í jafnréttisbaráttunni undan farin ár.

Global Women's Summit eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku er ein stærsta kvennaráðstefna í heimi og iðulega sækja hana yfir 1000 konur úr öllum geirum atvinnulífsins frá yfir 80 löndum.

Hanna Birna sagðist stolt af áföngum sem Ísland hefði náð á sviði jafnréttismála. Hún benti á að Ísland hefði verið valið efst á lista kynjajafnréttis í heiminum af lista sem á eru 136 lönd fimmta árið í röð. En þessar mælingar byggjast á pólitískri þátttöku, efnahagslegu jafnrétti og aðgang að mennta- og heilbrigðis þjónustu. Hún benti einnig á að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi væri 40% hærri en meðaltal í Evrópu og að þessi þáttur hefði mikil áhrif á hagvöxt landinu.

Hanna Birna sagði fyrirmyndir, nám, og jafnvægi milli fjölskyldulífs og vinnu vera helstu ástæðurnar fyrir þessum góða árangri. Hún benti á sögulegar stundir eins og kvennafrídaginn árið 1975 og kosningu Vigdísar til forsetaembættis árið 1980.

Hins vegar sagði hún að á síðastliðnum árum hefði það verið jafnrétti til fæðingarorlofs sem hefði skilað mestum árangri. En árið 2000 voru sett lög sem veittu bæði konum og körlum jafnan rétt til fæðingarorlofs. Þetta leiddi til þess að atvinnurekendur væru ekki að taka „áhættu“ við það að ráða konu á barnseignaraldri frekar en karl í starf. Þetta leiddi m.a. til aukins jafnréttis á vinnustöðum sérstaklega í garð ungs fólks.

Tölur sýna að 90% af karlmönnum nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Hanna Birna sagði þó að enn væru verk framundan til að auka jafnrétti kynjanna. Ein leið til þess væri með því að nýta form einkareksturs, sérstaklega í heilbrigðis og menntageiranum og hvetja konur til að stofna fyrirtæki á í þeim geirum. Hún benti á að hlutafall einkarekstur á sviði mennta- og heilbrigðiskerfis á Íslandi væri mjög lágt miðað við hin Norðurlöndin.