Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og fv. borgarstjóri, segir ekki hægt að varpa vanda tónlistarhússins Hörpu yfir á skattgreiðendur og að borgaryfirvöld þurfa að vera skýr í því að láta skattgreiðendur ekki greiða fyrir hallarrekstur tónlistarhússins.

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi en sem kunnugt er sýnir ný úttekt að rúmlega 400 milljóna króna halli verður á rekstri tónlistarhússins á þessu ári. Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar, rekstrarfélags Hörpu, hefur í vikunni lýst því yfir í fjölmiðlum að bæði ríki og borg þurfi að leggja rekstrinum til aukið fjármagn. Þetta stangast á við orð Péturs frá ársbyrjun þegar hann sagði í samtali við RÚV að rekstur hússins myndi standa undir sér, húsið yrði sjálfbært og að ekki þyrfti að leita í vasa skattgreiðenda.

Í frétt RÚV í gærkvöldi var það rifjað upp að þann 19. febrúar 2009 undirrituðu Hanna Birna, sem þá var borgarstjóri, og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra undir viljayfirlýsingu þess efnis að ríki og borg tækju yfir framkvæmdir og rekstur tónlistarhússins Hörpu.

Hanna Birna sagði í gærkvöldi að þá hafi línur verið algjörlega skýrar um öll fjárframlög.

„Sú ákvörðun byggði á því að meira fjármagn færi ekki til verkefnisins en þá hafði fyrir löngu verið ákveðið. Ég efast um að borgarstjórn hefði tekið ákvörðun um að halda áfram nema þetta skilyrði hefði verið alveg skýrt,“ sagði Hanna Birna.

„Það var alveg skýrt þegar borgin afgreiddi þetta að meira fjármagn færi ekki. Þetta er ekki vandamál skattgreiðenda. Það er ekki hægt að varpa þessum vanda yfir á skattgreiðendur, allavega af hálfu borgaryfirvalda var það alveg skýrt, þannig að í mínum huga er það ekki í boði.“

Sjá frétt RÚV.

Tónlistarhúsið Harpan
Tónlistarhúsið Harpan
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)