Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, var s.l. þriðjudag aðalfyrirlesari á ráðstefnu um framseljanlega aflakvóta í höfuðborg Chile, Santiago de Chile en Chilemenn tóku upp kerfi framseljanlegra aflakvóta í mörgum helstu fiskistofnum sínum 2001 og hyggjast endurskoða kerfið fyrir 2012.  Kerfið nær til stórra fiskiskipa, en ekki smábáta á grunnsævi.

Á vef Libertad Desarrllo hugveitunnar kemur fram að Hannes Hólmsteinn hafi gefið Chile-mönnum þrjú ráð í fyrirlestri sínum í ljósi reynslu Íslendinga.

Í fyrsta lagi ættu þeir að láta kerfið ná til allra fiskistofna. Í öðru lagi ættu smábátaeigendur að vera innan kerfisins og fá úthlutað aflakvótum, en við það myndi andstaða þeirra við kerfið minnka eða hverfa. Í þriðja lagi ættu kvótarnir að vera ótímabundnir, svo að útgerðarmenn tækju mið af langtímahagsmunum sínum, sem væru hinir sömu og þjóðarinnar, að fiskistofnarnir væru nýttir á sem ábatasamastan hátt.

Hannes Hólmsteinn sagði, að í rauninni væri ágreiningurinn um kvótakerfi ekki hagfræðilegur, heldur pólitískur. Það væri almennt samkomulag um, að kvótakerfi væri hagkvæmara en önnur þau kerfi, sem reynd hefðu verið, til dæmis í Evrópusambandinu, þar sem sjávarútvegur væri víða í kaldakoli. Margir ættu hins vegar erfitt með að sætta sig við, að útgerðarmönnum tækist í kvótakerfi að snúa tapi í gróða.

Á vef Libertad Desarrllo kemur fram að meðal annarra fyrirlesara voru sjávarútvegsráðherra Chile, Jorge Chocair, og formaður Landssambands útvegsmanna í Chile, Rodrigo Sarquis. Þá kemur einnig fram að þeir hafi allir verið hlynntir kerfi slíkra framseljanlegra aflakvóta og töldu rétt að halda kerfinu áfram eftir 2012.

Þá kemur loks fram að einnig eru miklar umræður í Perú um kvótakerfi. Perúmenn tóku vorið 2008 upp kerfi aflakvóta í ansjósuveiðum, sem er helsti fiskistofn þeirra, en þeir kvótar eru enn ekki framseljanlegir.

Sjá nánar á vef Libertad Desarrllo. (textinn er á spænsku)