Ríkisstjórnin kynnti áform um afléttingu hafta mánudaginn síðastliðinn og ef marka má hækkanir á markaði síðan hún var tilkynnt má áætla sem svo að hún sé fjárfestum að skapi. Frá lokun markaða á föstudegi til þriðjudags hækkaði úrvalsvísitalan um þrjú prósentustig og náði sínu hæsta gildi frá hruni á þriðjudaginn. Í gær snerist sú þróun við þar sem hlutabréf allra félaga á markaðnum fóru lækkandi. Ávöxtunarkrafa skuldabréfa hækkaði einnig nokkuð í gær, þó meira á óverðtryggðum en verðtryggðum bréfum.

Seðlabankinn tilkynnti í gær stýrivaxtahækkun sína um 0,5 prósentustig auk þess sem seðlabankastjóri gaf sterkt vilyrði fyrir annarri hækkun í ágúst. Harður tónn Seðlabankans um frekari vaxtahækkun er talinn líklegur orsakavaldur lækkana á markaði í gær en að mati Önnu Kristjánsdóttur, sjóðsstjóra hjá Stefni, endurspeglar það viðbrögð bankans við nýjustu kjarasamningum. „Seðlabankinn var búinn að gefa út verðbólguspá sem miðaðist við nokkuð lægri launahækkanir en nýjustu kjarasamningar gefa til kynna. Þeir sjá að launaþrýstingurinn verður öllu meiri og samrýmist ekki þeim verðstöðugleika sem Seðlabankinn vill ná,“ segir hún.

„Þó svo að flestir hafi verið að búast við 50 punkta hækkun í [gær] þá hafa fjárfestar verið að bíða eftir tilkynningu frá Seðlabankanum um hvernig hann væri að meta framtíðina,“ segir Valdimar Ármann sjóðsstjóri hjá GAMMA en þar vísar hann til framtíðarhorfa bankans í kjölfar kjarasamninga, nýjum hagvaxtartölum og áætlun um afléttingu hafta. „Það kemur mjög harður tónn í þessari tilkynningu og harðari en flestir gerðu ráð fyrir. Þá boðar hann aðra 50 punkta hækkun í ágúst og mjög líklega frekari vaxtahækkun strax í haust. Eins og skuldabréfamarkaðurinn var í [gær] þá var hann greinilega ekki að búast við svona hörðum tón.“

Þótt að markaðurinn hafi tekið vel í afnám hafta við fyrstu sýn þá virðist hann enn vera að melta áhrif þeirra. Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri Stefnis, bætir því við að aðgerðirnar koma ekki eins við öll fyrirtæki. „Stærstu fyrirtæki landsins sem eiga möguleika á fjármögnun erlendis frá munu njóta góðs af þessu,“ segir hann. „Harðari tónn og hraðari vaxtahækkanir á innlenda krónumarkaðnum ætti að koma verr við minni og meðalstór félög sem eru fjármögnuð í krónum á fljótandi vöxtum og hafa ekki tök á því að fjármagna sig erlendis. Það hjálpar stórum félögum í Kauphöllinni að þau eru oft hvort tveggja fjármögnuð erlendis og með tekjur erlendis frá og eru tiltölulega lítið skuldsett samanborið við minni félög.“

Fjallað er ítarlega um árshlutauppgjör Kauphallarfélaganna í fylgiriti Viðskiptablaðsins, „Úr Kauphöllinni“, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .