Í nauðasamningsfrumvarpi Allrahanda GL (AGL), sem samþykkt var af kröfuhöfum félagsins á fundi þann 28. júlí sl., var kveðið á um að félagið Snókur myndi leggja til 540 milljónir í nýtt hlutafé. Nokkrum dögum síðar var Snóki skipt út sem fjármögnunaraðila fyrir Pac1501, móðurfélag Hópbíla, samhliða 830 milljóna króna kaupum síðarnefnda félagsins á hluta af rekstri AGL.

Héraðsdómur Reykjavíkur samþykkti nauðsamninginn með úrskurði sem kveðinn var upp 10. nóvember. Kröfuhafinn E.T., dótturfélag Snóks, hefur kært úrskurðinn til Landsréttar.

Í gögnum málsins kemur fram að umsjónarmanni skuldara hafi verið gert kunnugt um það 26. júlí, tveimur dögum fyrir kröfuhafafundinn, að AGL ætti í viðræðum við Horn III um fjármögnun samningsins. „Sama dag virðist síðan gengið frá fjármögnunarloforði, sem bendi til þess að viðræður hafi verið í gangi í nokkurn tíma án þess að varnaraðilar hafi verið upplýstir um þær eða aðrir kröfuhafar,“ segja Snókur og E.T. í greinargerð sinni.

Kristmundur Einarsson, framkvæmdastjóri Snóks, segir það skjóta skökku við í ljósi þess að á fundinum hafi eina spurningin frá kröfuhöfum snúið að fjármögnuninni og enginn hafi andmælt, þar á meðal stjórn og lögmaður AGL sem hafi heldur ekki upplýst um hina nýju fjármögnun.

Breytt fjármögnun „óbreytt, ef ekki betri“

Í úrskurði héraðsdóms er því lýst að þar sem aðilar hafi ekki náð endanlega saman um eignarhald og samstarf hafi stjórn AGL leitað annarra leiða til að fjármagna samninginn. Að sögn AGL er yfirlýsing Pac1501 „nær öldungis sambærileg“ yfirlýsingu Snóks og staða kröfuhafa við breytta fjármögnun sé „óbreytt, ef ekki betri“. Yfirlýsing um fjármögnun hafi jafnframt ekki skuldbindingargildi samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti.

Í aðalkröfu sinni kröfðust Snókur og E.T. að nauðasamningurinn yrði staðfestur eftir forsendum sem lagt var upp með í beiðni AGL til héraðsdóms, þ.e. með fjármögnun frá Snóki, og til vara að samningnum yrði hafnað. Héraðsdómur taldi aðalkröfuna ekki dómtæka, m.a. sökum þess að samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti gæti dómari orðið við kröfu um staðfestingu nauðasamnings eða hafnað henni, en ekki bundið staðfestingu nauðasamnings frekari skilyrðum eða forsendum.

Héraðsdómur taldi engin efni til að fallast á mótmæli Snóks og E.T. og vísaði m.a. til þess að engir aðrir kröfuhafar mættu til að mótmæla staðfestingu nauðasamningsins. Þá hafi Landsbankinn, eigandi að 62,4% samningskrafna, verið meðmæltur samningnum.

Skrítin skilaboð dómstóla

Kristmundur telur að dómstólar væru að senda kröfuhöfum skrítin skilaboð verði það staðfest að skuldari í nauðasamningsferli mætti breyta forsendum nauðasamnings, eftir atkvæðagreiðslu um frumvarp að nauðasamningi, án aðkomu umsjónarmanns og án þess að upplýsa kröfuhafa og afla samþykkis þeirra fyrir fram. Hann kveðst bjartsýnn á að Landsréttur komist að annarri niðurstöðu.

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður AGL, telur að það hafi verið tilefnislaust að fara með málið fyrir Landsrétt eftir úrskurð héraðsdóms og tefja þannig enn frekar greiðslur til kröfuhafa.

Í greinargerð E.T. fyrir Landsrétt, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, kemur fram að félagið uni niðurstöðu héraðsdóms er varðar aðalkröfuna en telur eftir sem áður að niðurstaða héraðsdóms sé röng er varðar varakröfuna.

„Í ljósi alls sem framan greinir út frá hagsmunum kröfuhafa félagsins er að mati sóknaraðila þeim sé best borgið með gjaldþroti félagsins þar sem skiptastjóri tæki við og færi yfir eignir og skuldir félagsins og tryggði að eignir félagsins bæði duldar og upplýstar kæmu til greiðslu á skuldum þess,“ segir í greinargerðinni. Þá telur E.T. ekkert í fyrirstöðu að þrotabú félagsins geti gengið inn í samninginn við Pac1501.

Snókur hafi átt frumkvæðið

Þórir segir að félagið hafi ákveðið að skoða aðrar fjármögnunarleiðir í kjölfar þess að Snókur hótaði í bréfi þann 23. júlí að draga hlutafjárloforð sitt til baka. „Þeir áttu frumkvæðið að því að þeim var skipt út.“ Ekki hafi verið gerð grein fyrir þessu á fundinum til að komast hjá óvissu. Þórir segir aukinheldur að áætlanir Snóks hafi verið með þeim hætti að þeir hefðu ekki fengið yfirfærslu á leyfi til notkunar á vörumerki Gray Line.

Kristmundur segist vissulega hafa tjáð forsvarsmönnum AGL að Snókur kynni að draga hlutafjárloforð sitt til baka ef ekki yrði gengið frá hluthafasamkomulagi og klárað samninga um starfslok Þóris og Sigurdórs Sigurðssonar, hluthafa AGL, en legið hafi fyrir að þeir myndu yfirgefa fyrirtækið þegar nýir meirihlutaeigendur tækju við. Hann tekur þó fram að félagið hefði aldrei dregið yfirlýsingu sína til baka.

Baðlón í Hveradölum

Meðal eigna AGL er 72% hlutur í Hveradölum ehf., sem hyggst halda úti baðlóni í Stóradal á Hellisheiði. Í umhverfismatsskýrslu Hveradala sem birt var í janúar sl. segir að áætlaður kostnaður uppbyggingarinnar í heild sinni sé um 6 milljarðar króna og áætlaður framkvæmdatími sé 3-4 ár.

Í ársreikningi AGL er eignarhluturinn í Hveradölum metinn á 158 milljónir, í samræmi við hlutafé félagsins. Kristmundur segir að E.T. muni m.a. byggja kröfu sína fyrir Landsrétti að hluta á að kröfuhafar hafi ekki verið upplýstir um raunverulegt verðmæti eignarhlutarins og hann hafi ekki verðlagður af þriðja aðila. Þeim hafi verið sýndar væntingar um að virði Hveradals ehf. sé talsvert hærra en lagt er upp með í nauðasamningsfrumvarpinu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 1. desember.