Hansína Jensdóttir, dóttir Jens Guðjónssonar gullsmiðs, tapaði í gær dómsmáli í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem tekist var á um réttinn yfir tveimur skráðum vörumerkjum, sem bæði heita JENS. Stefnandinn var Jens Guðjónsson ehf., sem er í eigu fyrrverandi stjúpsonar Jens Guðjónssonar, Jóns Snorra Sigurðssonar.

Merki JENS er eitt elsta og þekktasta skartgripamerki á Íslandi, en á því er mynd af hárprúðri konu, og var það hannað af svissneskri listakonu árið 1962. Merkin tvö voru notuð í einkarekstri Jens og Ingibjargar Ólafsdóttur, þáverandi eiginkonu hans og móður Jóns Snorra.

Árið 1987 keypti Jón Snorri 20% hlut í gullsmíðaverkstæði Jens og á sama tíma eignaðist Hansína 20% hlut í rekstrinum. Á þeim tíma var starfsemin skráð á Jens persónulega sem óskráð einkafirma.

Rekstrarforminu var breytt árið 1992 með stofnun hlutafélagsins Jens Guðjónsson hf. Jens átti sjálfur 20% hlut í rekstrinum, Ingibjörg átti 18%, Jón Snorri 40%, Hansína 20% og Sigríður Sigurðardóttir 2%. Árið 1995 jókst eignarhlutur Hansínu í félaginu í 40% þegar Jens og Ingibjörg afsöluðu henni 20% hlut í því og árið 1997 keypti Jón Snorri alla eignarhluti hennar í Jens Guðjónssyni hf. Þegar þau Jens og Ingibjörg slitu samvistum ári síðar komu hlutabréf þeirra í félaginu í hlut Ingibjargar.

Árið 1999 sendi lögmaður Jens félaginu bréf þar sem þess var krafist að félagið hætti tafarlaust notkun á vörumerkjunum tveimur. Kom fram í bréfinu að starfsemi og vörur stefnanda hefðu verið auðkenndar eingöngu undir nafninu Jens, sem væri eiginnafn og listmannsnafn Jens Guðjónssonar. Auk þess sem vörumerkin hefðu verið notuð af stefnanda í leyfisleysi. Þá var þess krafist að notkun innsigla sem hefðu að geyma vörumerkið JENS, og sem vörur framleiddar á gullsmíðaverkstæðinu Jens Guðjónsson ehf. væru merktar með, yrði hætt tafarlaust og innsiglin afhent Jens Guðjónssyni. Í niðurlagi bréfsins var áréttað að vörumerkin væru skráð í eigu Jens Guðjónssonar persónulega.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að við stofnun hlutafélagsins árið 1992 hafi félagið tekið yfir allan rekstur Jens Guðjónssonar og þar með hin umdeildu vörumerki. Síðari athafnir aðila málsins, svo sem salan á eignarhlutum til félagsins árið 1997 og í skilnaðarkjörum Jens og Ingibjargar, styðja einnig þessa niðurstöðu að mati dómsins. Félagið telst því að mati dómsins réttur eigandi vörumerkjanna.