Bandaríski háskólinn Stanford University hefur sent bandaríska snyrti- og heilsuvöruframleiðandanum Nu Skin kröfu um að hætta að vísa til rannsókna skólans í auglýsingum sínum fyrir vörurnar.

Frá þessu er greint á fréttavef Reuters. Í kröfu Standford kemur fram að Nu Skin hafi auglýst Stuart Kim, prófessor í erfðaefnafræði, sem samstarfsmann fyrirtækisins (Nu Skin Partner). Nu Skin selur m.a. vörur sem eiga að „endursetja“ gen, m.a. í þeim tilgangi að veita notendum umglegri húð.

„Hvorki Dr. Kim né Stanford eru samstarfsmen Nu Skin og hafa ekkert með fyrirtækið að gera,“ segir í kröfu háskólans í lauslegri þýðingu. Í samtali við Reuters segist Dr. Kim þó hafa starfað lítillega með Nu Skin til ársins 2011 en hann hefði þó aldrei þegið fjármagn frá fyrirtækinu. Í kröfu háskólans er farið fram á að Nu Skin fjarlægi allar tilvísanir í Dr. Kim innan sjö daga.

Það sem vakið hefur athygli er að fréttirnar um kröfu Stanford komu aðeins nokkrum klukkutímum eftir að fjallað var um mögulegar aðgerðir gegn Nu Skin bæði í Kína og Bandaríkjunum. Sem kunnugt er fer markaðssetning Nu Skin í stuttu máli þannig fram að einstaklingar selja hver öðrum vörum og byggja þannig upp stjórnendur og dreifingaraðila í kringum sjálfan sig.

Mjög strangar reglur gilda um slíkar markaðs- og söluaðferðir í Kína og í frétt Reuters er rifjað upp þegar kínversk stjórnvöld fóru í aðgerðir gegn pýramídasölufyrirtækjum á tíunda áratugnum. Árið 1998 voru fyrrnefndar söluaðferðir bannaðar. Ritch Wood, fjármálastjóri Nu Skin, segir þó í samtali við Reuters að markaðs- og söluaðferðir Nu Skin séu í takt við kínversk lög.

Hlutabréf í Nu Skin lækkuðu um 4% í Kauphöllinni í New York í gær.