Nú er tækifæri til að virkja mannauð landsmanna og byggja upp öflugan hátækniiðnað hér á landi, sem er forsenda fyrir bættum hagvexti og lífskjörum, að sögn Ingvars Kristinssonar, formanns Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, á ráðstefnu um upplýsingatækni á Nordica hotel í morgun. Á ráðstefnunni, sem bar yfirskriftina: ?Verður upplýsingatækni þriðja stoðin í verðmætasköpun og gjaldeyristekjum Íslands árið 2010?? var dregin upp mynd af stöðu, tækifærum og framtíðarsýn upplýsingatækniiðnar hér á landi.

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sem flutti inngangserindi á ráðstefnunni, sagði að upplýsingatækni snerti líf fólks í sífellt meira mæli og ætti þátt í því að auka hagsæld á ýmsum sviðum. ?Upplýsingatækni er nauðsynleg í öllu okkar starfi og við getum nánast ekki án hennar verið. Það er til dæmis staðreynd að upplýsingatækni á mikinn þátt í velgengni þeirra fyrirtækja sem eru hvað atkvæðamest í því sem við köllum útrás.?

Forsætisráðherra sagði að árangur nágrannaþjóða á sviði þekkingariðnaðar ætti að verða iðnaðinum hér á landi hvatning og leiðarljós í framtíðaruppbyggingu samfélagsins. Hann sagði að með sameiginlegu átaki gætu Íslendingar horft til þess að í framtíðinni yrði upplýsingatækni styrkasta stoðin í íslensku stefnahagslífi.

Ingvar Kristinsson, formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, sagði að sjávarútvegur og stóriðjustefna hefðu stuðlað að hagvexti og bættum lífskjörum á liðnum áratugum. Nú væri tækifæri til að virkja mannauð landsmanna og byggja upp öflugan hátækniiðnað. Ingvar benti á stefnu nágrannaþjóða á þessu sviði, svo sem Íra sem hefðu lagt mikla áherslu á hátækniiðnað með heimboði fyrirtækja og skattaívilnunum. Væri svo komið að hátækniiðnaður væri um 50% í vægi vöruútflutnings á Írlandi.

Ingvar benti einnig á að aðrar Norðurlandaþjóðir hefðu einnig lagt ríka áherslu á uppbyggingu í hátækniiðnaði, s.s. Finna og Svía. Einnig mætti nefna Dani sem stefndu að því að verða ein af helstu hátækniþjóðum í heimi eftir 10-20 ár. Þá væri hægt að nefna Norðmenn sem á 20 árum hygðust byggja upp hátækniiðnað sem taki við af olíuiðnaði. Á sama tíma hefðu stjórnvöld á Íslandi einungis lagt áherslu á almenn rekstrarskilyrði allra atvinnugreina. Hann sagði nauðsynlegt að breyta stjórnskipulaginu hér á landi og taka mið af breyttu samfélagi. Ingvar sagði að hátækniiðnaður væri forsenda fyrir bættum hagvexti og lífskjörum og nú væri lag til þess að tífalda útflutning á upplýsingatækni, í 40 milljarða króna, fram til ársins 2010.

Frans Clemmesen, sviðsstjóri í ráðuneyti vísinda og tækni í Danmörku, fjallaði um uppbyggingu og stefnu Dana í upplýsingatækniiðnaði. Uppbygging á því sviði hefði orðið til þess að iðnaðurinn væri orðinn ein helsta útflutningsgrein Danmerkur. Hann nefndi sem dæmi að dönsk stjórnvöld væru óhrædd að stokka upp í ráðuneytum og miðla einstökum málefnum til þess að taka mið af breytingum í samfélaginu.

Wilfried Grommen, framkvæmdastjóri stefnumótunar hjá Microsoft í Evrópu, fjallaði um tækifæri Íslands í upplýsingatækni. Grommen sagði að möguleikar Íslendingar væru miklir í upplýsingatækni. Hann sagði jafnframt greinilegt að landsmenn nýttu upplýsingatækni til þess að stuðla enn frekar að kröftugu og sjálfbæru upplýsingasamfélagi. Grommen sagði mikilvægt fyrir Íslendinga að hugsa stórt til þess að viðhalda vexti og samkeppni. Þá þyrftu Íslendingar að skilgreina og betrumbæta djarfa framtíðarsýn á þessu sviði og benti einnig á að stjórnvöld, menntastofnanir og iðnfyrirtæki yrðu að vinna að sama markmiði til að stuðla að sú framtíðarsýn yrði að veruleika.