"Ekkert er hæft í þeim ummælum að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hafi aldrei átt hluti þá sem bankinn var skráður fyrir í Eglu hf.
Hauck & Aufhäuser gerðist hluthafi í Eglu hf. hinn 15. janúar 2003, ásamt Keri hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf., og var eigandi helmings hlutafjár félagsins þegar það keypti kjölfestuhlut af íslenska ríkinu í Búnaðarbanka Íslands hf. hinn 16. janúar 2003," segir í yfirlýsing frá Eglu hf.

Í Ríkisútvarpinu þann 26. júní 2005 er haft eftir Vilhjálmi Bjarnasyni: ?Og í þessu tilfelli þá er það alveg ljós að þarna var hinn virki eignarhluti í höndum hins svokallaða S-hóps sem hafði fengið lán og veðsett bréfin greinilega til þýska bankans.?

Þá er haft eftir Vilhjálmi Bjarnasyni í Morgunblaðinu 27. júní 2005: ?Að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hafi aldrei átt hlut í Búnaðarbankanum heldur hafi S-hópurinn fengið lán hjá þýska bankanum til að fjármagna kaupin og veðsett um leið hlutabréf í Búnaðarbankanum.?

Þessar fullyrðingar er rangar segir í yfirlýsingu Eglu.

Eina lánafyrirgreiðslan sem Egla hf. naut í þessum viðskiptum kom frá Landsbankanum, viðskiptabanka Eglu hf., eins og fram kom í yfirlýsingu sem Egla hf. sendi frá sér í apríl 2003, vegna umfjöllunar fjölmiðla um sameiningu Kaupþings og Búnaðarbanka.

Vilhjálmur fullyrðir jafnframt í Morgunblaðinu þann 27. júní 2005 að engar upplýsingar komi fram um það í ársskýrslu þýska bankans að hann eigi hlut í Búnaðarbankanum. Því hljóti aðalframkvæmdastjórinn að hafa skrökvað, annað hvort í fjölmiðlum eða í ársskýrslunni.

Eðlilega finnast engar upplýsingar um að Hauck & Aufhäuser hafi átt hlut í Búnaðarbankanum. Hauck & Aufhäuser var hluthafi í Eglu hf., sem keypti kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. ásamt fleiri fjárfestum, og þau bréf voru færð í ársreikningi Hauck & Aufhäuser á því tímabili sem bankinn átti hlut í Eglu hf., eins og fram kemur í yfirlýsingu frá Hauck & Aufhäuser 27. júní 2005.

Jafnframt skal það áréttað enn og aftur að Hauck & Aufhäuser átti fulltrúa í bankaráði Búnaðarbankans og síðar KB banka, frá því gengið var frá kaupum Eglu hf. á kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum þar til á síðasta aðalfundi KB banka.

Vangaveltur um að Hauck & Aufhäuser hafi ekki tekið fullan þátt í kaupunum á kjölfestuhlut í Búnaðarbanka Íslands hf., í gegnum kaup sín í Eglu hf., eiga ekki við nein rök að styðjast og sætir undrun að kennari við jafn virta stofnun og viðskipta- og hagfræðideild Háskóla íslands, skuli láta hafa slíkar órökstuddar dylgjur eftir sér í fjölmiðlum.

Undir þetta ritar Kristinn Hallgrímsson, hrl. fyrir hönd Eglu hf.