Hávaxtakrónan féll  um 7% Hávaxtamyntir eiga undir högg að sækja en krónan tekur þyngsta höggið Mesta dagslækkun krónu frá því hún fór á flot árið 2001 leit dagsins ljós í gær: Krónan féll um 6,6% og lauk deginum í 153,4 stigum, sem er mun meira en aðrar hávaxtamyntir sem horft er til.

Rekja má þessa miklu lækkun meðal annars til aukinnar áhættufælni fjárfesta í kjölfar kaupa JP Morgan á fjárfestingarbankanum Bearn Stearns fyrir um 16,5 milljarða króna, sem er 93% lægra verð en þegar markaðurinn fór í helgarfrí á föstudaginn var. Þessar fréttir hitta krónuna fyrir á veikri stund en hún hefur verið í hröðum veikingarfasa að undanförnu. Fréttin hristi aukin heldur upp í hlutabréfamörkuðum og vísitölur lækkuðu talsvert um allan heim. Mikil velta var á gjaldeyrismarkaði, eða 92 milljarðar króna.

Vaxtamunurinn við evru er þurrkaður upp á skemmri endanum, samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingum, en um áramót var hann um 10%. Í kjölfarið verður krónan viðkvæmari fyrir skortsölu og fjárfestar sjá ekki hag í að fjárfesta í framvirkum skiptasamningum. Í gegnum tíðina hefur krónan þótt frekar há, að mati sérfræðinga, sérstaklega þegar hún var í kringum 110-120 stig. Það var þó réttlætt með því að það væri of dýrt að skortselja krónu. Það er ekki lengur uppi á teningnum, til mjög skamms tíma – tveir til þrír dagar – kostar það lítið sem ekkert.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .