Hagnaður HB Granda í fyrra nam 14,9 milljónum evra, eða um 2,4 milljörðum króna miðað við meðalgengi ársins 2012, að því er segir í tilkynningu frá félaginu. Árið 2011 nam hagnaður félagsins 37 milljónum evra og er því um töluverðan samdrátt að ræða milli ára. Skýrist hann að verulegu leyti vegna virðisrýrnunar aflaheimilda upp á 21,6 milljónir evra.

Velta fyrirtækisins jókst úr 183,7 milljónum evra árið 2011 í 197,3 milljónir en vegna þess að kostnaðarverð seldra vara hækkaði í takt við þetta jókst rekstrarhagnaður um rúma 1,2 milljónir evra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og virðisrýrnun (EBITDA) var 59,3 milljónir evra eða 30,0% af rekstrartekjum, en var 56,2 milljónir evra eða 30,6% árið áður.

Eignir HB Granda námu í árslok 2012 304,8 milljónum evra, eigið fé var 169,4 milljónir og skuldir félagsins 135,5 milljónir evra.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að vegna nýrra laga um veiðigjöld hafi veiðigjöld fyrirtækisins fjórfaldast frá síðasta fiskveiðiári. Miðað við forsendur laganna nema áætluð veiðigjöld til greiðslu vegna fiskveiðiársins 2012/2013 12 milljónum evra, eða um 2,0 milljörðum króna á árslokagengi. Sérstakt veiðigjald mun stighækka á næstu árum þar til það verður 65% af sérstaklega reiknaðri rentu allra sjávarútvegsfyrirtækja samanlagt á fiskveiðiárinu 2016/2017 byggt á rekstarafkomu fyrirtækjanna árið 2014. Veruleg hækkun á veiðigjöldum félagsins lækkar rekstrarvirði þess, að því er segir í tilkynningunni

Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2013 verði vegna rekstrarársins 2012 greidd 1 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 1.698 milljónir króna, sem samsvarar 6,0% af eigin fé eða 6,7% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2012. Arðurinn verði greiddur 30. apríl 2013.