*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 28. febrúar 2014 13:50

HB Grandi greiðir rúma 2,7 milljarða í arð

Ætla má að þrír lykileigendur HB Granda deili með sér tæpum helmingi af rúmlega 2,7 milljarða arðgreiðslu HB Granda.

Ritstjórn
Kristján Loftsson í Hval er af stærstu eigendum HB Granda.
Aðrir ljósmyndarar

Stjórn HB Granda leggur til að hluthafar fái 1,5 krónu á hlut greidda út í arð vegna afkomu félagsins í fyrra. Þetta jafngildir arðgreiðslu upp á 2.720 milljónir króna eða sem nemur 17,2 milljónir evra sem er uppgjörsmynt félagsins. Til samanburðar fengu hluthafar HB Granda greiddan út rúmar 11,3 milljónir evra í fyrra vegna afkomunnar árið á undan. Það svarar til rúmra 1,7 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins í dag. 

Fram kemur í uppgjörstilkynningu HB Granda að arðurinn verður greiddur út 25. apríl 2014. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 21. mars 2014 og arðleysisdagur því 24. mars 2014. Arðsréttindadagur er 26. mars 2014.

HB Grandi hagnaðist um 35,4 milljarða króna í fyrra sem var 133% meira en árið 2012.

Þetta eru eigendur Granda

Stærsti hluthafi HB Granda er félagið Vogun. Fiskveiðahlutafélagið Venus á Vogun. Það er í eigu Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals, Birnu Loftsdóttur og Sigríðar Vilhjálmsdóttur. Vogun á 40,3% hlut í HB Granda auk þess sem Fiskveiðahlutafélagið á samkvæmt síðasta ársreikningi 3,4% hlut í HB Granda. Í fyrrahaust greindi Viðskiptablaðið frá því að Kristján, Birna og Sigríður hefðu keypt eignarhluti þeirra Ingibjargar Björnsdóttur og Kristínar Vilhjálmsdóttur í Fiskveiðahlutafélaginu Venusi. Ingibjörg er ekkert Árna Vilhjálmssonar, fyrrverandi stjórnarformanns HB Granda en hann lést í fyrravor. Saman áttu fjölskyldur þeirra Kristjáns og Árna stóran hlut í HB Granda og Hval í gegnum tengd félög. Fiskveiðahlutafélagið Venus á m.a. félagið Vogun sem aftur á 40,3% hlut í HB Granda. Félagið á jafnframt 37,9% hlut í Hampiðjunni sem aftur á 9,4% hlut í HB Granda. Fiskveiðahlutafélagið Venus á svo 3,42% hlut í Granda. 

Miðað við þetta fá félög tengd Kristjáni, Birnu og Sigríði í kringum 1,3 milljarða króna í arð frá HB Granda.