HB Grandi hagnaðist um 8,2 milljónir evra á síðasta ársfjórðungi. Það jafngildir 1,2 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi. Á sama tíma í fyrra var hagnaðurinn um 4,9 milljónir evra. Rekstrartekjur fyrirtækisins á tímabilinu voru 57,1 milljón evra. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi fyrirtækisins .

Eigið fé HB Granda nam 222,3 milljónum evra í lok síðasta ársfjórðungs, eða jafnvirði 32,4 milljarða króna miðað við núverandi gengi. Eignir HB Granda námu 391 milljónum evra í lok ársfjórðungsins.

Í tilkynningu frá HB Granda segir að innflutningsbann Rússa á sjávarafurðir frá Íslandi hafi mikil áhrif á starfsemi fyrirtækisins, sérstaklega á Vopnafirði. Um 17% tekna HB Granda á síðasta ári komu frá rússneskum aðilum. „Erfitt er að meta fjárhagsleg áhrif þessa á HB Granda hf en gróflega áætlað munu tekjur félagsins lækka um u.þ.b. 10-15 milljónir evra á ársgrundvelli.  Árið 2014 námu tekjur félagsins 215 milljónum evra. Félagið á nú um 3,2 milljónir evra í útistandandi kröfum í Rússlandi,“ segir í tilkynningu HB Granda til Kauphallarinnar.