Tekjur HB Granda námu 12,3 milljörðum króna, EBITDA var 4,1 milljarður og hagnaður 2,5 milljarðar. Á sama hátt voru tekjur á fyrri helmingi síðasta árs 10,3 milljarðar, EBITDA 3,2 milljarðar og tap 244 milljónir króna. Eignir voru samtals 52,0 milljarðar króna, skuldir 26,5 milljarðar og eigið fé 25,5 milljarðar. Hér fyrir neðan má sjá tölur úr afkomutilkynningu HB Granda.

Rekstur

Rekstrartekjur HB Granda á fyrri árshelmingi ársins 2011 voru 76,3 milljónir evra, en voru 60,4 milljónir evra árið áður. EBITDA var 25,2 m€ (33,1%), en var 19,0 m€ (31,5%) árið áður Hagnaður tímabilsins var 15,7 m€, en árið áður var tap 1,4 m€

Rekstur fyrstu sex mánaða ársins 2011

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrri helmingi ársins 2011 námu 76,3 m€, samanborið við 60,4 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 25,2 m€ eða 33,1% af rekstrartekjum, en var 19,0 m€ eða 31,5% árið áður.

Auknar tekjur og hærri EBITDA skýrast einkum af hærra afurðaverði á erlendum mörkuðum. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 4,2 m€, en um 10,9 m€ á sama tíma árið áður. Gengismunur vegna skulda var hverfandi, þar sem meginhluti skulda hefur verið fluttur í evrur. Á fyrri helmingi ársins 2010 varð hins vegar gengistap upp á 8,5 m€ vegna veikingar evru gagnvart öðrum gjaldmiðlum, sem félagið skuldaði í. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1,4 m€. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 17,2 m€ og hagnaður tímabilsins var 15,7 m€. Tekjuskattur að fjárhæð 1,5 m€ er reiknaður samkvæmt framtali í íslenskum krónum. Laun og launatengd gjöld námu samtals 28,3 m€ (4,6 milljarðar króna), en 24,4 m€ (4,1 milljarður króna) á sama tíma árið áður.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 314,0 m€ í lok júní 2011. Þar af voru fastafjármunir 256,0 m€ og veltufjármunir 58,0 m€. Eigið fé nam 153,9 m€ og var eiginfjárhlutfall 49,0%, en var 46,5% í lok árs 2010. Heildarskuldir félagsins voru í júnílok 160,1 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 10,8 m€ á fyrri helmingi ársins 2011, en 6,6 m€ á sama tíma fyrra árs. Nettó fjárfesting í rekstrarfjármunum nam 4,9 m€. Fjármögnunarhreyfingar námu 10,9 m€ og voru nettó afborganir langtímalána þar af 8,9 m€. Handbært fé lækkaði því um 5,0 m€ og var í lok júní 6,2 m€.

Skipastóll HB Granda hf. var óbreyttur.