Í dag föstudaginn 1. okt. var undirritaður samningur um kaup HB Granda á skipi til veiða og vinnslu á uppsjávarfiski. Samningurinn er með fyrirvara um að skipið standist endanlega úttekt sem verður framkvæmd næstu daga. Skipið er smíðað á Spáni 1994 og er 105 metra langt og 20 metra breitt. Frystiafköst skipsins verða um 200 tn. á sólarhring. Um borð er fiskimjölsverksmiðja með afköst upp á 150 tn. á sólarhring af hráefni.

Skipið er væntanlegt til landsins í byrjun árs 2005. Tilgangur félagsins með þessum kaupum er að geta í ríkara mæli en verið hefur unnið uppsjávarfisk til manneldis, sérstaklega síld, loðnu og kolmunna, sem hefur að mestu verið unninn í fiskimjöl og lýsi hjá fyrirtækinu. Kaupverð skipsins er rúmlega 14 milljónir USD, en að auki þarf að kosta verulegar breytingar á vinnslubúnaði skipsins.