Alþjóðaflugvöllurinn í Dubai er sá flugvöllur sem flestir farþegar fóru um í fyrra og hefur tekið fram úr Heathrow flugvelli í London hvað þetta varðar. Í frétt BBC segir að alls hafi 70,5 milljónir farþega farið um flugvöllinn í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í fyrra, en farþegar í gegnum Heathrow námu á sama tíma 68,1 milljón.

Haft er eftir talsmanni Heathrow flugvallarins að síðustu 350 árin hafi Bretar notið þess að búa yfir stærstu höfn eða stærsta flugvelli heims. Heathrow hafi hins vegar ekki haft möguleika til að vaxa samhliða aukinni eftirspurn og því hafi farið sem fór. Nýtni flugvallarins sé nú um 98% og því ekki hægt að fjölga flugfarþegum án þess að stækka völlinn.