Samtök iðnaðarins og Háskólinn í Reykjavík hafa undirritað samning um gerð og þróun íslensku hátæknivísitölunnar. Það felur í sér að Tækni og verkfræðideild HR mælir og greinir árlegar breytingar lykilþátta hátækniiðnaðarins. Þær upplýsingar verða svo dregnar saman í hlutlægan mælikvarða - íslensku hátæknivísitöluna.

Tilgangurinn er að þróa hagnýtt greiningartæki til að styðja betur við nýsköpun og vöxt á sviði hátækni í landinu. Vísitalan mun gefa hlutlæga mynd af framvindu greinarinnar á Íslandi svo hægt sé að benda með nákvæmari hætti á það sem vel er gert og hvað má betur fara. Íslenska hátæknivísitalan auðveldar einnig allan samanburð við erlend ríki.