Össur hf. greindi í gær frá einstakri nýjung sem leitt hefur af samstarfi fyrirtækisins við rannsóknar- og þróunarfyrirtækið Victhom Human Bionics. Um er að ræða gervifót, sem byggist á lífverkfræðilegri hönnun og ætlaður er fólki, sem misst hefur fótlegg fyrir neðan hné. Í yfirlýsingu félagsins kemur fram að þetta er fyrsti fótur sinnar tegundar. Til stendur að reyna hann í nokkrum völdum löndum, m.a. í Norður-Ameríku, en fyrirhugað er að markaðssetning af fullum þunga hefjist árið 2005. Ætlunin er að hefja undirbúning að markaðssetningu með nokkrum sérstökum prófunum í samvinnu við takmarkaðan fjölda viðskiptavina. Um leið og því stigi er lokið hefst vörukynning af fullum þunga undir nýju vörumerki og með nýrri kynningarherferð.

Að sögn Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar, er langt í að sala á þessari vöru hefjist enda tekur allt markaðsstarf á svona vöru langan tíma. "Til skamms tíma litið skilar þetta litlu fyrir greiðsluflæði félagsins og óhætt að segja að það taki eitt til eitt og hálft ár að koma þessu í sölu. Þetta er hins vegar gríðarlega spennandi vara sem þarna er að verða til og við erum mjög spennt fyrir því að komast inn á þetta svið. Ég vill þó taka fram að þetta hefur ekki áhrif á afkomu félagsins til skamms tíma litið." Fyrir stuttu var greint frá því hér í Viðskiptablaðinu að verðið á fætinum verður ein til ein og hálf milljón króna sem er mun hærra verð en félagið hefur áður selt vörur sínar á.

"Eftir þriggja ára þrotlausa vinnu er fyrsta afurð nýsköpunar okkar á sviði lífverkfræði að líta dagsins ljós. Þessi tækni fellur mjög vel að sviði stoð-og stuðningstækja. Nýi fóturinn er fyrsta útspilið í röð lífverkfræðilegra lausna á þessu sviði," bætir Stéphane Bédard, forstjóri og rekstarstjóri Victhom, við. "Fyrir okkur eru það forréttindi að vera í samstarfi við Össur. Þessi tilkynning í dag markar stóra stund fyrir okkur: það fylgir því mikil gleði að sjá smíði okkar fara frá tilraunastofunni og út á vettvang notenda, og okkur er það sérstök ánægja að afhenda hana samstarfsaðila okkar, sem undirbýr næstu skrefin í áttina að því að koma henni á markað," segir hann í tilkynningunni.