*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 15. ágúst 2021 15:35

Hefur enga trú á aðgerðum Berlínar

Pawel Bartoszek borgarfulltrúi hefur enga trú á leiguþaki og eignarnámi leiguíbúða sem reynd og rædd hafa verið í Berlín.

Júlíus Þór Halldórsson
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður skpiulags- og samgönguráðs, segist alfarið á móti aðgerðum á borð við þær sem eru uppi á borðum á leigumarkaði í Berlín.
Gígja Einars

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður Skipulags- og samgönguráðs, er ómyrkur í máli í afstöðu sinni til hugmynda á borð við þær sem til hafa verið lagðar og gripið til í Berlín. Leiguþak var sett á árið 2019, en ógilt í stjórnlagadómstóli Þýskalands nú í vor. Ráðgefandi kosning verður svo haldin í september um að borgin taki 240 þúsund íbúðir leigufélaga eignarnámi gegn gjaldi.

„Ég er alfarið á móti leiguþaki á almennum leigumarkaði, og eignaupptöku að sjálfsögðu. Ég hef ekki nokkra trú á því að slíkar íþyngjandi aðgerðir muni bæta aðstæður leigjenda, hvorki hér í Reykjavík né í Berlín.“

Reykjavíkurborg hafi hins vegar ýmis félagsleg úrræði - bæði beina útleigu og stuðning við uppbyggingu fjölbreyttari leigumarkaðar - sem ætlað sé að taka á þeim félagslegu vandamálum sem að baki krafna eins og í Berlín liggja.

„Á Norðurlöndunum höfum við farið þá leið að vera með öflugt félagslegt kerfi, en á móti ekki neytt einkaaðila til að í reynd vera félagslega kerfið,“ segir hann og vísar til þvingana leigusala í Berlín.

„Ef hið opinbera vill reka félagsleg úrræði þá bara hefur það háa skatta og nýtir þá svo með einu eða öðru móti til að reka sterkt félagslegt net. Við neyðum ekki fólk sem kaupir sér íbúðir á almennum markaði til að vera þetta félagslega net, eins og hefur stundum verið meginlandsviðhorfið, að minnsta kosti í Þýskalandi og Frakklandi.“

„Það er mikið talað um húsnæðismarkaðinn eins og það sé gríðarlega erfitt bæði að eignast íbúð í Reykjavík og leigja, sem ég auðvitað skil, maður vill alltaf gera betur. Staðreyndin er hins vegar sú að við stöndum alls ekki illa í þeim efnum í alþjóðlegum samanburði,“ segir hann og bendir á að húsnæðisverð sé sem dæmi lágt sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. „Þetta er víða snúnara fyrir fólk en á Íslandi.“

Leiguþakið fellt af dómstólum
Löggjafaþing Berlínar lögfesti leiguþak sumarið 2019, sem tók gildi í febrúar árið eftir og miðaðist við leiguverð þegar það var samþykkt, á öllum íbúðum byggðum fyrir 2014. Leiguverð þeirra íbúða sem reglurnar tóku til lækkaði í kjölfarið í samanburði við 13 stærstu borgir Þýskalands utan Berlínar.

Þróunin var hins vegar þveröfug á leigumarkaði fyrir nýju, undanþegnu íbúðirnar. Leiguframboð þaksettu íbúðanna þurrkaðist upp, og umframeftirspurnin færðist yfir á þær nýju, þar sem skorturinn var tekinn út í gegnum verð í stað framboðs.

Í apríl á þessu ári komst stjórnlagadómstóll Þýskalands hins vegar að þeirri niðurstöðu að þakið stæðist ekki stjórnarskrá; slíkt vald væri aðeins á höndum alríkisyfirvalda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.