Gagnaveita Skagafjarðar hefur hafið framkvæmdir við ljósleiðaravæðingu heimila á Sauðárkróki. Gagnaveitan hefur einnig ákveðið að taka þátt í uppbyggingu á háhraðaneti í dreifbýli Skagafjarðar. Hefur fyrirtækið sent inn upplýsingar til Fjarskiptasjóðs og afmarkað sér svæði innan héraðsins þar sem það hyggst byggja upp háhraðanettengingar. Þarf því að vera lokið fyrir 1. júlí 2008 segir í frétt félagsins.

Gagnaveita Skagafjarðar var stofnuð árið 2006. Eigendur hennar eru Sveitarfélagið Skagafjörður, Skagafjarðarveitur, Kaupfélag Skagfirðinga, Byggðastofnun, Fjölnet og smærri aðilar. Tilgangur Gagnaveitunnar er að leggja ljósleiðara inn á hvert heimili á Sauðárkróki og víðar í þéttbýli eftir því sem aðstæður skapast og taka þátt í uppbyggingu á háhraðatengingum í dreifbýli Skagafjarðar.

Í drögum að framkvæmdaáætlun hefur bænum verið skipt upp í fjögur verksvæði; Túnahverfi, Hlíðahverfi, syðribæ og útbæ. Hafist verður handa í Túnahverfi í sumar og er áætlað að þar verði öll hús tengd í haust. Því næst verður haldið í Hlíðahverfi, þá syðribæinn og loks útbæinn. Áætlað er að ljúka þessu verkefni 2009. Verður Sauðárkrókur þar með kominn í hóp þeirra þéttbýlisstaða sem tekið hafa forystu í möguleikum í nýtingu á upplýsingatækni.

Ljósleiðarinn verður lagður inn fyrir veggi heimila í sérstakt inntaksbox, íbúum að kostnaðarlausu. Um leið og ljósleiðaratengingin er virkjuð er tengibox sett upp annarsstaðar á heimilinu og strengur lagður á milli inntaksboxins og þess. Úr þessu tengiboxi er síðan lagt í tölvur, sjónvörp, síma og þau tæki sem tengja á. Mikilvægt er að fólk taki ljósleiðarann inn fyrir húsvegg svo möguleiki verði á því að virkja tenginguna.


Gagnaveita Skagafjarðar mun aðeins reka ljósleiðaranetið og selja aðgang að því fyrir fasta mánaðarlega upphæð. Aðrir aðilar koma til með að veita þjónustu inn á kerfið svo sem hefðbundna internetþjónustu, sjónvarpsdreifingu og símaþjónustu. Nú þegar hafa Fjölnet og Vodafone ákveðið að veita þjónustu inn á kerfið segir í tilkynningu.