Erlendir kröfuhafar þrotabúa gömlu bankanna leggja mikið á sig til að stýra opinberri umræðu í viðleitni sinni við að tryggja sér sem hagstæðasta útkomu svo þeir fái sem mest greitt út í erlendum gjaldeyri. Þetta fullyrðir fjárfestirinn og hagfræðingurinn Heiðar Guðjónsson. Hann hefur skrifað nokkrar greinar um stöðu Íslands í skugga kreppunnar, m.a. efndi hann til ritdeilu við Gylfa Magnússon, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra.

Heiðar segir í nýjustu grein sinni í Fréttablaðinu í dag það stærsta hagsmunamál almennings næstu vikurnar vera það hvernig haldið verður á samningum við erlenda kröfuhafa. Vandi Íslands felst í því að of lítill gjaldeyrir er í landinu til að mæta afborgunum erlendra lána, að sögn Heiðars. Hann vill að ekki verði samið við kröfuhafana en mælir með því að kallaðir verði til erlendir sérfræðingar.

Stærstu kröfuhafarnir tengjast í gegnum Goldman Sachs

„Nú er umræðan sú að selja eigi Arion- og Íslandsbanka, sem eru í eigu kröfuhafa að langmestu leyti, til íslenskra fjárfesta og greitt verði í erlendum gjaldeyri. Í þeirri umræðu hefur verið nefnt að mikill afsláttur verði veittur í þeim viðskiptum. Afsláttur frá hverju, spyr ég? Það er ekkert verð á samninga við kröfuhafa föllnu bankanna svo af fjármögnuninni verði. Með öðrum orðum er verið að veifa tugum milljónum dollara framan í stjórnvöld, til að ná út þúsundum milljóna dollara, eða hundraðfaldri þeirri fjárhæð. Það er augljóst hve lítið vit er í slíkum viðskiptum. [...] Þetta á ekki að koma hlutaðeigandi á óvart. Það hefur verið löngu vitað að stærstu kröfuhafarnir tengjast í gegnum Goldman Sachs, sem miðlaði í upphafi stórum hluta krafnanna, og svo eru margir í kröfuhafahópnum fyrrverandi starfsmenn bankans. Þetta var útskýrt í minnisblaði sem undirritaður sendi Seðlabanka Íslands árið 2009,“ skrifar Heiðar og bætir við að fjölmiðlafulltrúar kröfuhafa, lögfræðingar þeirra og bankamenn vinni að hagsmunum umbjóðenda sinna en ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

„Þeir reyna kerfisbundið að draga úr trúverðugleika þeirra sem standa á rétti þjóðarinnar og reyna að afvegaleiða umræðuna. Við verðum að standa fast á rétti okkar og ekki leyfa afglöpunum í kringum IceSave að endurtaka sig.“