Heilbrigðisráðuneyti hefur kynnt áform um að heimila heilbrigðisstofnunum ríkisins að ráða til starfa heilbrigðisstarfsfólk á aldrinum 70-75 ára. Ráðuneytið segir að með breytingunum yrði aldurshámark heilbrigðisstarfsmanna ríkisins fært til samræmis við gildandi aldurshámark heilbrigðisstarfsmanna sem reka eigin starfsstofu.

Í núgildandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er kveðið á um að segja skuli upp ráðningarsamningi við starfsmann frá og með næstu mánaðarmótum eftir að hann verður 70 ára gamall. Enga undanþágu er að finna fá þessu ákvæði.

„Uppsagnirnar eru óháðar starfsgetu eða áhuga á að starfa áfram þrátt fyrir mikinn skort á heilbrigðisstarfsfólki, sem búast má við að muni aukast enn frekar á næstu árum miðað við óbreyttar aðstæður,“ segir í kynningu á frumvarpinu í Samráðsgátt.

Markmiðið með breytingunni sé að mæta mönnunarvanda í opinberri heilbrigðisþjónustu. Stór hluti heilbrigðisstarfsfólks muni ná 70 ára aldri á næstunni, sérstaklega innan stærstu stéttanna sem eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar. „Í þeim stéttum er þegar er mikill skortur á fagfólki.“

Áfram yrði skylt að segja upp heilbrigðisstarfsmönnum ríkisins við 70 ára aldur, en heimilt yrði að ráða þá aftur með nýjum ráðningarsamningi, allt til 75 ára aldurs, en þá yrði skylt að segja þeim upp endanlega.

Í frummati á áhrifum á jafnrétti kynjanna er bent á að stærstu heilbrigðisstéttirnar séu hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sem eru báðar kvennastéttir (yfir 95% konur).

„Með því að vinna lengur gætu þær valið að safna auknum lífeyrisréttindum, en vitað er að konur lifa lengur en karlar. Þannig gætu konur einnig bætt upp fyrir að hafa unnið hlutastörf einhvern tímann á lífsleiðinni, t.d. vegna barneigna.“