Ríkisendurskoðun telur að áætlanagerð vegna kaupa og innleiðingar á nýju fjárhags- og mannauðskerfi fyrir ríkið (Orra) hafi verið ábótavant. Í frétt á vefsíðu fyrirtækisins segir að bæði hafi innleiðingartími verið vanáætlaður sem og stofnkostnaður kerfisins. Þá var heildarkostnaður þess ekki metinn.

Ríkisendurskoðun beinir því til stjórnvalda að standa framvegis betur að málum við kaup og innleiðingu hugbúnaðar. Í fréttinni segir að skýrsla Ríkisendurskoðunar um málið byggi að hluta til á sömu gögnum og ófullkomin skýrsludrög frá árinu 2009 en að hún hafi verið unnin algjörlega frá grunni á þremur vikum.

Heildarrekstrarkostnaður var aldrei áætlaður

Heildarkostnaður ríkisins af Orra nam um 5,9 milljörðum króna á tímabilinu 2001‒2011, að því er segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Fram kemur í skýrslunni að á þessu tímabili hafi útgjöld vegna kerfisins verið innan fjárheimilda að undanskildum árunum 2001 og 2004.

Í samningnum var gert ráð fyrir að stofnkostnaður vegna Orra næmi rúmum einum milljarði króna. Þegar upp var staðið varð hann 41% meiri að raungildi (þ.e. miðað við verðlag ársins 2001). Ástæður þessa eru m.a. sá dráttur sem varð á innleiðingunni og meiri þörf á þjónustu Skýrr hf. en áætlað hafði verið.

Rekstrarkostnaður kerfisins nam samtals um 4,3 milljörðum króna á árunum 2001‒2011 eða rúmlega þremur milljörðum króna miðað við verðlag ársins 2001. Þetta samsvarar um tvöföldum stofnkostnaði kerfisins. Ríkisendurskoðun gagnrýnir að heildarkostnaður ríkisins af rekstri Orra var aldrei áætlaður. Stofnunin beinir því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að vinnubrögð við gerð kostnaðaáætlana fyrir stórar og dýrar innleiðingar verði bætt.

Reynslulausir starfsmenn Skýrr

Áætlað var að innleiðing kerfisins tæki einungis 20 mánuði og lyki í apríl 2003. Kerfið kallaði á breytt vinnubrögð þeirra starfsmanna ríkisins og samkvæmt samningnum skyldi Skýrr veita þeim kennslu og þjálfun í að nota kerfið.

Stýrinefnd undir forystu Ríkisbókhalds bar ábyrgð á framgangi innleiðingarinnar. Árið 2006, þ.e. um þremur árum eftir að henni átti að ljúka samkvæmt samningnum, höfðu einstakir kerfishlutar þó enn ekki verið innleiddir. Auk þess höfðu ekki allar ríkisstofnanir lokið innleiðingu kerfisins. Samkvæmt samningnum átti Fjársýsla ríkisins að vinna sérstaka úttekt á innleiðingunni þegar henni væri lokið. Haustið 2012 hefur slík lokaúttekt enn ekki verið gerð. Stýrinefndin hefur því ekki staðfest að innleiðingunni sé lokið.

Ríkisendurskoðun telur að áætlaður innleiðingartími Orra hafi verið vanmetinn í upphafi. Um leið megi rekja þann mikla drátt sem varð á innleiðingunni til reynsluleysis starfsmanna Skýrr hf. enda var um að ræða fyrstu heildaruppsetningu kerfisins á Íslandi. Þá hafi reynst tímafrekt að fá ríkisstarfsmenn til að tileinka sér ný vinnubrögð.